Ýmis ávinningur af handverki
Bogga gengur í mörg störf í Ljósinu, eins og flestir starfsmenn. Hún byrjaði í móttökunni þar sem hún starfar enn í dag, heldur utan um handverksnámskeiðin, finnur leiðbeinendur og kennir á námskeiðunum líka ásamt því að stökkva í fleiri verk innanhúss. „Þú getur verið skapandi á fjölmörgum stöðum, eins og til dæmis í eldhúsinu, ég held meira að segja að það sé kennd skapandi stærðfræði. Við getum verið skapandi í hvernig við leysum verkefni, hvernig við brjótum saman þvottinn og röðum í skápana okkar. Ég er til dæmis alltaf að brjóta handklæðin mín á mismunandi hátt til að nýta plássið sem best. Í hvert sinn sem ég hef flutt hef ég aðlagað þvottinn að rýminu sem hann á að fara í,“ segir Bogga og hlær.
Hvað gerir handverkið fyrir skjólstæðinga Ljóssins? „Ljósið byggir á iðjuþjálfun og hluti af því að fara í krabbameinsmeðferð er að þú getur misst þolið fyrir að vera innan um fólk og læti. Með því að mæta á handverksnámskeið getur þú komið stutta stund og gleymt þér í einhverju og þannig smám saman aukið úthaldið í að vera í kringum fólk og stunda einhverja iðju. Þá er æðislegt ef þú getur fundið þér eitthvað sem þú hefur ánægju af. Því er gaman að geta boðið upp á fjölbreytt handverk af því áhugasvið okkar er auðvitað misjafnt,” segir Bogga.
Krabbameinsmeðferð getur einnig valdið doða í fingrum og segir Bogga að þá geti verið gott að handleika leir, því handverkið geti aukið styrk í höndum. „Það er ýmis ávinningur af handverki sem þú ert ekki endilega meðvitaður um. Þú hefur líka tækifæri til að bæta færni í handverki sem þig hefur lengi langað til að stunda en ekki komið þér í eða bara gert eitthvað sem þú ert rosalega góður í, og gert það í kringum annað fólk. Þú þarft engan grunn fyrir námskeiðin, leiðbeinendur taka við byrjendum og lengra komnum á öll námskeið, fyrir utan myndlistina sem skiptist í byrjenda- og framhaldsnámskeið.“
Námskeiðin eru ekki kynjaskipt og eru einnig fyrir allan aldur. „Karlmenn eru ekki jafn líklegir til að fara í handverk, fyrir utan kannski fluguhnýtingar og tálgun. Oft þarf meira að hvetja þá til að prófa einhver námskeið. Konurnar eru oftar til í að prófa allt. Það er engin skylda að halda áfram á námskeiði, ef þér finnst það rosalega leiðinlegt og ekki vera fyrir þig þá máttu auðvitað hætta. Þú ert ekki að skuldbinda þig en um að gera að prófa. Hluti af þessu er líka að skrá sig ekki í allt, maður þarf að passa upp á orkuna og nýta hana í það sem maður hefur áhuga á og forgangsraða verkefnum,” segir Bogga.
„Þegar þú gerir eitthvað sem þú hefur ánægju af og ert með einhverja færni í, það má ekki vera of létt fyrir þig svo þér leiðist ekki og ekki of erfitt fyrir þig svo þér finnist þú ekki ráða við það, þá kemstu á stað þar sem tíminn hverfur og þú gleymir þér í verkefninu, svo rankar þú allt í einu við þér: „ég á að sækja barnið eftir fimm mínútur.” Þetta er svo góð tilfinning og svo æðislegt að komast á þennan stað. Sumir komast á þennan stað við að fara út að hlaupa, smíða eða elda. Þetta snýst bara um að vera hér, en vera ekki að spá í öllum verkefnunum sem bíða, heldur að setja þau til hliðar. Þetta er þjálfunaratriði,” segir Bogga. „Við erum öll skapandi, þetta er eins og enn einn vöðvinn sem þarf að þjálfa, við þurfum bara að finna okkar svið.”