„Ég kalla þetta mitt Everest“ 

Höfundur

Ragna Gestsdóttir

Ljósmyndari

Marinó Flóvent

Ólöf Erla Einarsdóttir fann fyrir bólgu í bringunni í fyrra sem hún skrifaði sem vöðvabólgu vegna mikils vinnuálags og streitu enda hafði regluleg brjóstaskimun ekki sýnt að neitt væri að. Næsta skimun leiddi í ljós að um hraðvaxandi brjóstakrabbamein var að ræða. Ólöf Erla segist þakklát fyrir að hafa verið gripin hratt og vel, en hún fór í lyfjameðferð, brjóstnám og geislameðferð í miðjum heimsfaraldri. Ólöf Erla leitaði í Ljósið stuttu eftir að hún hóf lyfjameðferð og segist eiga Ljósinu margt að þakka og ákvað hún að Hlabba 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu síðastliðið sumar til að gefa til baka til Ljóssins. Þrátt fyrir að læknislegri meðferð sé lokið þá segist Ólöf Erla enn eiga langt verkefni fyrir höndum og ætlar í fyrsta sinn að setja sjálfa sig og andlega og líkamlega heilsu í forgang. 

„Það var búið að vera mikið að gera hjá mér og manninum mínum, við vorum að kaupa íbúð og flytja, með lítið barn og heimili, ég að reka fyrirtæki og það var mikið að gera fyrir utan líkamann minn sem ég var í engum tengslum við á þessum tíma. Ég var rosalega þreytt og í ágúst í fyrra þá fann ég bólgu á bringunni á milli brjóstanna,“ segir Ólöf Erla. „Ég er búin að mæta í allar boðaðar brjósta- og leghálsskimanir og ég er einnig meðvituð um að strjúka brjóstin reglulega. Á þessum tíma var ég  hjá osteopata og spurði hann hvort maður geti fengið vöðvabólgu í bringuna og hann svaraði að það sé hægt að fá bólgur milli brjósks og beins. Ég sagði líka vinkonum mínum frá þessu og ein þeirra sagði að ég yrði að láta tékka á þessu, en ég sagði það óþarft, þetta væri bara vöðvabólga. Ég fór strax í einhverja afneitun,“ segir Ólöf Erla. 

 

Í september var mikið að gera hjá Ólöfu Erlu sem starfar sem grafískur hönnuður, jólavertíðin var hafin í vinnu fyrir auglýsingar jólatónleika og fleira. „Ég tók eftir hvað ég var orðin rosalega þreytt og þetta var skrítin þreyta, ég þurfti að leggja mig yfir daginn. En ég taldi þetta bara vera vegna vinnuálags og flutninga. Ég gúgglaði samt brjóstakrabbamein en það stóð hvergi að maður gæti fengið æxli í bringuna. Svo í september/október þá fannst mér bólgan ekki vera að minnka, í október fékk ég bréf um að mæta í brjóstaskimun og ég hringdi strax og pantaði tíma og fékk tíma í lok nóvember, en þá voru komin tvö ár frá síðustu skimun. Tveimur vikum áður en ég átti að mæta þá tók ég eftir að það var komið mar undir geirvörtuna, svo greip ég um brjóstið og sneri því til að gera skoðað marið betur og þá fann ég eitthvað í brjóstinu og ég man að það kom kaldur straumur yfir mig og ég þorði ekki að koma aftur við brjóstið. Ég gat ekki sofnað þessa nótt. Næstu daga á eftir var ég að ýta á brjóstið og fann að það var eitthvað öðruvísi í því en venjulega af því maður þekkir brjóstin á sér,“ segir Ólöf Erla sem mætti í skimunina á fimmtudegi. 

 

Hún segist enn hafa verið í einhverri afneitun. Hjúkrunarfræðingarnir hafi skoðað skjáinn í skimuninni og einn þeirra spurt hana hvort að geirvartan á hægra brjóstinu ætti það til að fara  inn í brjóstið. Ólöf Erla svaraði því til að hún vissi það ekki.

 

„Ég fór út í bíl þar sem maðurinn minn beið og ég sagði við hann að þær hefðu séð eitthvað. Mánudaginn á eftir fékk ég símtal um að það hafi eitthvað sést í myndatökunni og ég þurfi að mæta aftur daginn eftir. Maðurinn minn beið aftur út í bíl, það var tekin mynd og ég beðin um að bíða ef læknirinn vildi hitta mig.  Hann var síðan fljótur að skoða vinstra brjóstið, svo var hann rosalega lengi með hægra brjóstið. Ég var spurð hvort einhver væri með mér og ég svaraði að maðurinn minn væri úti í bíl en ég vilji ekki hringja í hann. Það var nógu mikið áfall að liggja þarna ber á bekknum þó hann kæmi ekki inn og sæi mig í þessum aðstæðum. Það var tekið sýni og svo fór læknirinn og ég settist upp og spurði: „Hvað nú?“ Og fékk það svar að það yrði hringt í mig.“

 

„Ég tók eftir hvað ég var orðin rosalega þreytt og þetta var skrítin þreyta, ég þurfti að leggja mig yfir daginn. En ég taldi þetta bara vera vegna vinnuálags og flutninga. Ég gúgglaði samt brjóstakrabbamein en það stóð hvergi að maður gæti fengið æxli í bringuna.“

Ein í Eldborg þegar símtalið kom

 

Símtalið sem Ólöf Erla beið eftir kom í hádeginu á föstudegi, þann dag var lokarennsli á jólatónleikum Siggu Beinteins sem Ólöf Erla hefur unnið að í fjölda ára og voru allir í hádegismat nema Ólöf Erla sem sat ein í Eldborgarsal Hörpu. „Þá hringdi ofsalega hress hjúkrunarfræðingur og ég hélt að hún væri að segja mér að allt hefði verið í lagi, nema hún segir að læknarnir vilji hitta mig á mánudag. Ég skellti á og sat þarna ein í smástund í einhverjum dofa, hringdi í manninn minn sem svaraði ekki, hringdi í Sóley vinkonu mína sem spurði hvort ég þyrfti að vera þarna um kvöldið og ég neitaði því og hún sagðist koma að sækja mig. Þar sem ég var búin að klára rennsli fyrir grafík á skjáum og allt var tilbúið fyrir rennslið fór ég og kvaddi Siggu. Ég lét á engu bera að eitthvað væri að hjá mér og sagði að ég þyrfti að fara vegna persónulegra mála, sem var ólíkt fyrri árum af því ég var alltaf viðstödd tónleikana. Ég og vinkona mín fórum á Kalda og fengum okkur bjór og ég var allan tímann: „Þetta er ekki neitt, ég er bara með vöðvabólgu,“ segir Ólöf Erla sem segir biðina yfir helgina hafa verið erfiða.

 

„Á mánudag, 6. desember, fórum við Silli og hittum skurðlækni og hjúkrunarfræðing og fengum þær fréttir að þetta væri krabbamein. Og ég spurði hvort þetta væri alvarlegt sem læknirinn svaraði játandi. Svo sagði hann að ég þyrfti í rannsóknir strax daginn eftir til að ákveða hvort ég færi í lyfjagjöf fyrst og svo aðgerð. Og þá rann svona á mig: „Bíddu hvað er að gerast?“  „Þú þarft að fara í brjóstnám.“  Og þá byrjaði ég að ofanda, tók af mér grímuna og byrjaði að gráta. Þetta var óraunverulegt, ég er 47 ára, hvað meinarðu að ég sé með krabbamein? Og talandi um afneitun, þegar læknirinn var búinn að segja mér allt, þá spurði ég hann hvað þetta sé í bringunni á mér. Og hann svaraði: „Þetta er krabbamein.“ Þetta er asnalegt að segja þetta, en þetta er rosa skrýtin afneitun. Seinna sagði krabbameinslæknirinn mér að það væri mjög sjaldgæft að fá krabbamein í bringuna og það kom síðan í ljós að þetta var móðuræxlið.“

 

Ólöf Erla greindist með æxli í bringunni sem var orðið 3,2 sm í desember eftir segulómun og hormónajákvætt hraðvaxandi. „Það var síðan annað æxli inni í brjóstinu sem ég fann þegar ég kleip brjóstið, það var 2,8 sm. Eftir brjóstnámið og vefjarannsókn á brjóstinu kom þriðja æxlið í ljós í geirvörtunni sem ekki hafði greinst áður. Í aðgerðinni voru teknir fjórir eitlar og það var krabbamein í tveimur þeirra, þannig að það var tekin holhandarhreinsun. Á þessum tveimur árum sem liðu milli skimana var meinið búið að dreifa sér mikið sem mér fannst sjokkerandi.“

 

Sjálfsmynd þremur dögum fyrir brjóstnám. „Krumla utan um bilaða brjóstið. Smá að kveðja það.“

Ólöf Erla daginn eftir brjóstnám

„And So It Begins“

 

Eftir fundinn með læknunum þá keyrði Silli Ólöfu Erlu í Laugardalshöll í þriðju bólusetninguna vegna COVID, sem hún hafði verið boðuð í.  „Krabbameinslæknirinn sagði mér að það væri gott að vera vel bólusett í því sem ég væri að fara í gegnum. Á leiðinni hringdi ég í Sóleyju vinkonu mína og sagði henni að þetta séu verstu fréttirnar, ég man ekkert eftir þessu símtali, en ég sagði henni að hún yrði að hringja í hinar vinkonur okkar, ég treysti mér ekki til að segja þetta allt aftur. Ég labbaði síðan inn í Laugardalshöll, búin að gráta alla leiðina, rauðbólgin í augunum, og ég sit þarna með þúsund manns, horfi í kringum mig og þetta er bara mómentið sem rann upp fyrir mér að þú veist ekkert hvað manneskjan við hiðina á þér er að ganga í gegnum. Ég var að fá verstu fréttir lífs míns, þetta fólk vissi það ekki og ég sit bara þarna með grímuna og tárin leka. Það var enginn sem tók eftir því,“  segir Ólöf Erla.

 

„Daginn eftir mætti ég í blóðprufur, það var myrkur úti og spítalinn allur upplýstur og ég sem er rosalegur Lord of the Rings nörd fékk svona eins og þegar orrustan um Hjálmsdýpi er að hefjast; nú byrjar þetta,“ segir Ólöf Erla. Þar vísar hún til mikillar orrustu í Hringadróttinssögu J. R. R. Tolkien, Battle at Helm's Deep (orrustan um Hjálmsdýpi) þar sem Theódon konungur segir þessa fleygu setningu; And So It Begins.

 

„Ég fór í fullt af blóðprufum, daginn eftir í segulómun og tölvusneiðmynd til að sjá hvort meinið hefði dreift sér. Síðan þurfti ég að bíða í tvo daga og mér finnst þessi vika verst af öllu, eftir allt sem ég hef gengið í gegnum var þessi vika versta vika lífs míns. Fara í allar þessar rannsóknir og bíða. Svo var búið að segja mér að fara inn á krabb.is og lesa mér til og þar var viðtal við konu sem hafði fengið brjóstakrabbamein og náð sér, en móðir hennar hafði látist úr brjóstakrabbameini og ég bara gat ekki lesið þetta. Ég hafði enga matarlyst, grét og grét og var ofsalega hrædd af því ég fann fyrir meininu í ágúst og beið svo lengi og ég var svo hrædd um að þetta hefði dreift sér og ég myndi deyja. Þessar dagar,  6. - 8. desember voru bara hryllilegir,“ segir Ólöf Erla.

 

„Skurðlæknirinn hringdi síðan í hádeginu á föstudegi og sagði að meinið væri ekki búið að dreifa sér. Nú eru allir sameinaðir á Brjóstamiðstöð, krabbameinslæknar, skurðlæknar og geislalæknar, og þeir eru með teymisfundi á föstudögum þar sem þeir fara yfir öll mál og ákveða hvað þarf að gera. Mér var sagt að ég ætti að byrja í lyfjagjöf og það strax og það var góð tilfinning að læknarnir væru að grípa mig og grípa mig strax. Og ég fann hvað ég var umvafin og allir yndislegir. Ég þurfti að fara aftur í skoðun á vinstra brjóstinu, af því það sáust bólgnir eitlar á því og þá var tekið fullt af sýnum og ég fór í myndatöku og kom í ljós að það voru bólgur vegna COVID-bólusetningarinnar.  Ég fór í hjartaómun og 20. desember fékk ég lyfjabrunn, mögnuð tækni sem ég hafði aldrei heyrt talað um áður, en var ekkert mál. Það var svo fallegt að daginn sem ég mætti og fékk lyfjabrunninn þá lá ung kona í rúminu við hliðina á mér og læknirinn fór til hennar fyrst og spurði hana hvar meinið væri og hún svaraði að það væri í hægra brjósti. Síðan kom hann til mín og spurði hvar meinið væri og ég svara að það sé í hægra brjósti og hann þurfi ekki að endurtaka sig, ég hafi heyrt allt sem hann sagði við hana. Þannig að hann svarar að hún muni þá byrja og svo sé komið að mér. Þegar læknirinn var farinn dró ég tjaldið frá og kynnti mig fyrir ungu konunni í næsta rúmi og við byrjuðum að spjalla. Okkar saga er alveg eins, við greindumst á sama tíma, fengum lyfjabrunn á sama tíma, vorum í lyfjagjöf á sama tíma og þarna ákváðum við að verða vinkonur. Við erum búnar að styðja hvor aðra síðan,“ segir Ólöf Erla, sem hóf lyfjagjöfina rétt fyrir jól, 22. desember.  

 

„Þegar ég mætti í lyfjagjöfina tók Rúna æðislegur hjúkrunarfræðingur á móti mér sem fylgdi mér í gegnum allar lyfjagjafirnar þannig að það var alltaf kunnuglegt andlit. Ég fór í átta  lyfjagjafir á tveggja vikna fresti, fyrstu fjögur skiptin fékk ég tvö lyf. Ég gleymi aldrei þegar fyrsta lyfið var sett í lyfjabrunninn. Það var appelsínugult og ég held að erlendis sé það kallað The Red Devil sem mér finnst óviðeigandi. Ég horfði á það og hugsaði að það væri eins á litinn og Aperol Spritz og ákvað að ég ætlaði að fá mér Aperol Spritz þegar þetta ferli væri búið. Þetta var í COVID og það mátti enginn fara með mér í lyfjagjafirnar sem var mjög erfitt að vera ein í þessu. Mamma vinnur á geisladeildinni þannig að hún kom alltaf í smá stund. Silli ætlaði að koma með mér í þá fyrstu en var stoppaður í hurðinni sem tók rosalega á hann að þurfa að fara. Fyrir mig að labba þarna inn og sjá allt þetta veika fólk á mismunandi stigum í sínum veikindum. Hver lyfjagjöf tók þrjár klukkustundir og ég fann ekki neitt, svo kom ég heim og var þreytt. Síðan 4-5 dögum seinna fór ég alltaf í lægð, rosa þreytt, munnurinn skrýtinn, ég var samt heppin að verða aldrei flökurt. Ég þurfti líka að taka ónæmislyf og stera og sprauta mig daginn eftir lyfjagjafir í magann sjálf til að bústa hvítu blóðkornin.“

 

Þegar lyfjagjöfinni lauk fór Ólöf Erla í brjóstnám á hægra brjósti og holhandarhreinsun í sömu aðgerð þar sem eitlar voru teknir. „Og ég þurfti 48 ára gömul að gúggla hvað eitlar eru og hvað þeir gera. Og þetta var hægri hendin mín og ég er myndlistarkona, er þetta að fara að gera mér eitthvað? Eitlar eru hreinsunarkerfi líkamans sem hreinsar óhreinindi í líkamanum. Síðan sitjum við við tölvu í 3-4 klukkustundir daglega án þess að hreyfa okkur sem þýðir að óhreinindi safnast saman. Þannig að núna er ég komin með úr sem minnir mig á það á klukkustundarfresti að standa upp og hreyfa mig og ég geri það. Ég er líka farin að þurrbursta líkamann áður en ég fer í sturtu, það örvar sogæðakerfið og við eigum alltaf að bursta í átt að hjartanu. Ég er líka farin að drekka meira vatn.  Ég hefði viljað að einhver hefði kennt manni þetta allt, ég hafði bara ekki hugmynd. Ég fór í erfðarannsókn, meinið er ekki erfðatengt, það eru um hundrað DNA sem geta valdið krabbameini og ég er ekki með neitt þeirra. Þetta fékk mig hins vegar til að hugsa að í nokkur ár hef ég unnið mjög mikið, mikið stress, álag og kvíði, ég sit mikið og óhreinindin safnast upp í líkamanum. Mér skilst að krabbamein séu villa í frumuskiptingu þannig að það gæti tengst því, en maður veit aldrei. Þetta er bara óheppni.“

„Við Silli ákváðum líka að gifta okkur með stuttum fyrirvara á gamlársdag. Við vorum búin að ákveða að gifta okkur og halda veislu 14. október 2023, Silli verður fimmtugur í apríl það ár og ég verð síðan fimmtug í apríl 2024. Það var alltaf planið og við ætlum að halda plani, en við ákváðum að gifta okkur á gamlársdag ef allt færi á versta veg.“

Ólöf Erla og Silli á brúðkaupsdaginn

Brúðkaup á gamlársdag

 

Ólöf Erla á eins og fyrr sagði tvö börn frá fyrra sambandi en hún og barnsfaðir hennar skildu fyrir 12 árum, og á hann konu og dóttur. Ákváðu þau að bjóða Ólöfu Erlu og fjölskyldunni til sín á aðfangadag. „Við erum ein stór fjölskylda og hjálpumst að með börnin okkar. Þannig að við vorum hjá þeim með öll börnin okkar sem var æðislegt, við Silli þurftum ekkert að elda, ekkert að þrífa eða gera fínt heima, bara mættum, þau búin að elda, það fór vel um mig enda var ég farin að finna fyrir áhrifum lyfjagjafarinnar, fimmti dagurinn á eftir var samt alltaf verstur,“ segir Ólöf Erla.

 

„Við Silli ákváðum líka að gifta okkur með stuttum fyrirvara á gamlársdag. Við vorum búin að ákveða að gifta okkur og halda veislu 14. október 2023, Silli verður fimmtugur í apríl það ár og ég verð síðan fimmtug í apríl 2024. Það var alltaf planið og við ætlum að halda plani, en við ákváðum að gifta okkur á gamlársdag ef allt færi á versta veg. Það voru bara við hjónin, börnin okkar og vitni,“ segir Ólöf Erla.

 

„Ég átti að fara í lyfjagjöf númer tvö 5. janúar, ég var með sítt ljóst hár og vissi að ég myndi missa hárið í meðferðinni. Ég pantaði mér því tíma í klippingu daginn áður og var klippt alveg stutthærð og gaman að prófa það, ég hef aldrei verið stutthærð nema bara sem barn.  Áður en ég fór tók ég eftir því að hárið var að losna, stutta hárið dugði í fimm daga, þá hrundi það af, ég vissi ekki að þetta myndi gerast svona hratt. Og ekki bara á hausnum heldur alls staðar, ef þú skilur mig,“ segir Ólöf Erla og hlær. „Þannig að Silli minn sem er sköllóttur snoðaði mig þá alveg á hausnum og það var skrýtið að upplifa að vera sköllótt. “

 

Í febrúar var búið að afnema allar takmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins og segist Ólöf Erla hafa verið hrædd um að smitast af COVID.  „Ég smitaðist á föstudegi og missti þess vegna af lyfjagjöf sem var mjög erfitt af því maður vill bara klára þetta. Ég mátti ekki koma á spítalann í tíu daga og þurfti svo að vera með sérstaka grímu í 30 daga. Lyfjagjöfin var erfið og tók á, sérstaklega undir það síðasta, þá var ég orðin rosa veik. Ég kláraði lyfjagjöfina 6. apríl 2022, og fjórum vikum eftir það, 4. maí, fór ég í brjóstnám sem mér fannst ekkert mál miðað við allt sem ég hafði gengið í gegnum, ég vildi bara að þeir tækju þetta. Eftir fyrstu tvær lyfjagjafirnar fann ég ekki fyrir bólgunni hún var bara horfin þannig að lyfjagjöfin var að skila árangri. Eftir segulómun sem ég fór í eftir lyfjagjöfina sögðu læknarnir að eitthvað sæist og eftir aðgerðina kom í ljós að öll meinin voru ennþá lifandi og ég man hvað ég var hissa. Og síðan fannst þriðja æxlið og líka mein í eitlum, þannig að ég þurfti í geisla í 15 skipti. Ég byrjaði í geislunum í júní, eitt skipti frestaðist, vélin var biluð í eitt skipti og  svo var 17. júní sem gerði það að verkum að ég kláraði geislana 6. júlí og þann dag fékk ég mér Aperol Spritz,“ segir Ólöf Erla og brosir. „Ég greindist 6. desember 2021, síðasta lyfjagjöf var 6. apríl og síðustu geislar 6. júlí, magnað.“

 

Ljósið eins og eitthvað hlýtt

 

Ólöf Erla mætti fyrst í Ljósið eftir að hún var búin með tvær lyfjagjafir. Aðspurð um hvernig hún hafi fyrst heyrt af Ljósinu segist hún örugglega alltaf hafa vitað af því en ekki hugsað að hún þyrfti sjálf á þjónustunni að halda. „Þegar ég greindist voru allir að mæla með Ljósinu og ég vissi strax að ég myndi vilja fá leiðsögn í þessu ferðalagi sem ég var að fara í. Ég kalla þetta mitt Everest, ég var að fara í fjallgöngu og hverjir eru betri að leiðbeina mér í þessu verkefni nema þeir sem vinna við þetta alla daga,“ segir Ólöf Erla.

 

„Ljósið er eins og eitthvað hlýtt. Þegar þú ert að koma úr köldu eins og áfalli að greinast með krabbamein. Þau taka á móti þér brosandi og hjálpa þér andlega og líkamlega. Ég bara skil ekki ekki að þessi staður sé til. Núna er ég búin að eiga svo mörg móment yfir hvað ég er þakklát fyrir að koma í Ljósið og fyrir fólkið sem er hérna. Fólk í Ljósinu þekkir mig með nafni og mér þykir svo vænt um það. Ég man hvað mér fannst skrýtið að labba hérna inn, Þetta eru skrýtin skref að taka, og líka að sitja hér og hugsa: „Hérna er ég bara.“ Ég á enn þessi móment þar sem ég hugsa: „Ég var með krabbamein.“ Ég hitti iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og íþróttafræðing. Íþróttafræðingurinn sagði mér að það væri gott að byrja endurhæfingu strax, ekki þegar ferlið er allt búið, eins og ég hafði hugsað fyrst að gera. Ég fór í líkamsmat og þolpróf þegar ég mætti fyrst og hélt svo áfram að fara eftir því sem starfsfólk Ljóssins ráðlagði mér. Ég fór í jafningahóp sem ég er enn í, við erum að hittast og erum að fara saman í jólahlaðborð. Ég hef tekið eftir að þegar maður er í þessu ferli þá eru vinir og fjölskylda mikið að halda utan um mann, en þegar meðferðinni lýkur þá minnkar sá stuðningur, þó að stuðningurinn sé enn til staðar. Og ég gerði þau mistök sjálf að halda það að þegar lyfjameðferð, aðgerð og geislum væri lokið þá gæti ég farið að vinna aftur. En það kom í bakið á mér. Það er hellingur eftir og öll andlega og  líkamlega þreytan. Og þá er gott að fara í Ljósið og hitta fólk sem er að ganga í gegnum það sama og ég og ræða saman. Í hvert sinn sem mér finnst ég lítil í mér og segi eitthvað þá eru fleiri að ganga í gegnum það sama. Ég er núna að upplifa hvað ég er þreytt í hausnum, með mikla þoku í hausnum og hæg, og þegar ég er að tala með fullt af fólki í kringum mig þá á ég erfitt með að halda við í samræðununum og er bara mikið að hlusta. Og það lætur mér líða skringilega. Eins og þegar fólk segist hafa sagt mér eitthvað áður og jafnvel oft og ég man ekki eftir því. Þetta er bara ekki líkt mér og það er rosa skrýtið að vera svona.“

 

Ólöf Erla segist búin að fara á nokkur námskeið í Ljósinu í haust til að styrkja hugann. „Núna er ég á námskeiðinu Hver er ég? Mér finnst ég ekki sama manneskja og í fyrra, ég er andlega og líkamlega vöknuð til lífsins. Ég vann rosalega mikið og hugsaði um alla aðra en mig, núna er ég mjög meðvituð um mig og er að endurhugsa hvað ég vil gera í seinni hlutanum af ævinni. Ég lærði líka núvitund og fór á gott námskeið; Þrautseigja og innri styrkur. Svo er ég með plan frá íþróttafræðingunum, en þar sem ég bý í Hafnarfirði þá fer ég í World Class í Hafnarfirði. Í september fór ég í líkamsmat í Ljósinu og kom vel út og miklu betur en í janúar, áður en ég fór í meðferðina, sem sýnir mér hvað ég var komin á vondan stað líkamlega.“

 

„Ljósið er eins og eitthvað hlýtt. Þegar þú ert að koma úr köldu eins og áfalli að greinast með krabbamein. Þau taka á móti þér brosandi og hjálpa þér andlega og líkamlega. Ég bara skil ekki ekki að þessi staður sé til. Núna er ég búin að eiga svo mörg móment yfir hvað ég er þakklát fyrir að koma í Ljósið og fyrir fólkið sem er hérna. Fólk í Ljósinu þekkir mig með nafni og mér þykir svo vænt um það.“

Hlabbað fyrir Ljósið

 

Ólöf Erla tók fyrst þátt í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2008 þegar hún og vinkona hennar fóru í miðbæinn til að hvetja áfram og taka á móti þriðju vinkonunni sem hljóp hálfmaraþon. „Síðan fórum við á Vegamót og fengum okkur bjór. Og þá ákváðum við að taka allar þátt ári seinna, gerðum það og hlupum 10 km. Ég hljóp síðast 2017, var ólétt 2018, með lítið barn 2019 og svo kom COVID og ekkert maraþon var haldið,“ segir Ólöf Erla.

 

„Ég hef allt mitt líf gert allt sjálf, enginn hjálpað mér, flutti snemma að heiman og kom mér sjálf í gegnum nám. Ég  hef alltaf verið listræn og skapandi og þakklát fyrir allt sem gengur vel, þakklát fyrir fjölskylduna mína, vini, vinnuna mína og núna líkamann minn hvað hann hefur staðið sig vel. Og eftir þetta verkefni mitt hvað ég er þakklát fyrir Ljósið. Þegar þau fóru að auglýsa Reykjavíkurmaraþonið þá fann ég að mig langaði að taka þátt og gefa tilbaka. Ég fann eftir aðgerðina hvað orkan var að koma tilbaka og ég líka búin að vera í æfingum hjá Ljósinu og dugleg að hreyfa mig með því að fara út að labba,“ segir Ólöf Erla, sem skráði sig í 10 km.

 

„Ég ákvað að labba 10 km sem ég ákvað að kalla Hlabba, af því ég fer út að labba og hleyp aðeins með. Ég byrjaði að safna og setti markið í 100.000 kr., sem náðist á fyrsta sólarhring, þannig að ég hækkaði í 200.000 kr. Sem náðist á þremur dögum og ég endaði á að safna 550.000 kr. og peppaði fjölskyldu og vini að koma með mér. Börnin mín, mamma og bróðir minn og mágkona, vinkonur og fleiri á Íslandi, Svíþjóð og Spáni.  Við vorum um 25 í skærbleikum bolum sem ég hannaði, með eitt brjóst og eitt strik framan á, og nafn og merki Ljóssins framan og aftan á. Þetta var geggjað en ógeðslega erfitt. Ég var 1 klukkustund og 50 mínútur að hlabba þetta, metið mitt er 60 mínútur og ég hef alltaf ætlað að fara undir því. Ég bara á það eftir. Við vorum ekkert að flýta okkur, vorum bara að njóta okkar, dansa og hafa gaman. Ein vinkona mín hljóp fram og tilbaka, hún hljóp 16 km í heildina. Þegar ég var komin í Tryggvagötu var engin orka eftir, vinkonur mínar héldu utan um mig, svo hlupum við allar hönd í hönd niður Lækjargötu. Mér fannst markið aldrei nálgast. Þannig að þegar ég kom loksins í mark þá brotnaði ég niður af gleði að geta þetta, átta mánuðum eftir að ég greindist með krabbamein. Og gat gert eitthvað til að segja takk við Ljósið og mig langar að gera eins mikið og ég get til að hjálpa Ljósinu og vekja athygli á því og vona að ég sé að gera það. Ég tala reglulega um þau og kannski heyrir mig einhver segja frá þeim sem þarf seinna á Ljósinu að halda eða einhver honum nákominn.“ 

 

Næg verkefni til bættrar heilsu

 

Læknisfræðilegri meðferð er lokið en Ólöf Erla segir að næg verkefni séu hins vegar framundan í eftirmeðferð og að ná góðri líkamlegri og andlegri heilsu aftur af fullum styrk og í það ætli hún að gefa sér góðan tíma. „Ég hef tækifæri til að hugsa um heilsuna núna, hef sagt nei við öllum verkefnum og það eru allir mjög skilningsríkir. Ég er búin að leigja stúdíóið út til áramóta. Svo byrjar grafískur hönnuður á móti mér hér á efri hæðinni eftir áramót. Ég er búin að ákveða að ég ætla ekki að vinna svona mikið aftur. Núna tek ég morgnana fyrir mig til kl. 10, fæ mér kaffibolla, fer í göngu, ræktina eða nudd og hugsa vel um líkamann minn, hann á það skilið,“ segir Ólöf Erla.

 

„Krabbameinið mitt var hormónajákvætt. Næstu þrjú ár fer ég á fjögurra vikna fresti á Brjóstamiðstöð og fæ sprautu í magann, sem er eins og kjöthitamælir á stærð. Ég tek andhormón daglega í fimm ár og þeim fylgja miklir liðverkir, það er eins og þú sért með harðsperrur í öllum liðum og ef ég sit of lengi stirðna ég öll upp. En mér finnst þetta ekki það vont að ég geti ekki þraukað þetta. Það er talað um að ef meinið tekur sig ekki upp innan fimm ára þá er maður laus. Á sex mánaða fresti næstu þrjú ár fer ég í lyfjagjöf til að fá beinþéttnilyf, þá mæti ég á lyflækningadeild og lyfjagjöfin er klukkustund að renna í gegn. Og ég er slöpp í 2-3 daga á eftir. Þetta er hellingur andlega og líkamlega sem er eftir, ef maður heldur að þetta sé búið þegar virk meðferð er búin þá er það ekki þannig. Ég ætla að gefa mér tíma og koma sterkari tilbaka, frekar en að brotna kannski andlega og líkamlega niður. Ég hef tækifæri til þess að gefa mér tíma og ætla þess vegna að nýta það.“

 

20 ár eru síðan Ólöf Erla útskrifaðist sem grafískur hönnuður og segist hún hafa málað stöðugt námsárin þrjú. „Ég er að hugsa að byrja á því aftur núna að mála og skapa og næra sálina, hlusta á tónlist og sögur. Ég ætla að fara á myndlistarnámskeið í Ljósinu eftir áramót af því mig langar að fara í Ljósið, spjalla við jafningja og vera að mála,“ segir Ólöf Erla.

 

Hún segir að þegar hún hafi verið veik hafi þau hjónin látið sig dreyma um hvað þau vildu gera eftir að veikindunum lyki. „Við elskum góðan mat og gott vín og ég sagði við Silla að ég hefði aldrei komið til París. Og hann sagði að við myndum fara þangað þegar mér yrði batnað. Við erum að fara fyrstu helgina í nóvember og völdum þá helgi af því Sigur Rós er að spila á föstudeginum, Silli hefur túrað með þeim í 18 ár. Silli spurði Kjartan hvort þeir væru til í að spila í brúðkaupinu okkar þannig að hljómsveitin mætti öll og spilaði fyrir okkur. Við erum búin að panta borð á tveimur veitingastöðum .og svo ætlum við bara að njóta okkar. Jonathan Duffy vinur minn sem bjó á Íslandi í fimm ár býr núna í París ásamt Nathan manni sínum sem er franskur og þeir eru að skipuleggja sunnudaginn. Ég hlakka til að upplifa eitthvað sem við myndum ekki vita af, en Parísarbúar þekkja. Við ætlum að fara í listamannahverfið Montmartre, þar er markaður á laugardögum og mikið af listamönnum. Silla langar líka að sjá Eiffel-turninn, hann hefur komið oft til Parísar en aldrei náð að sjá hann. Ég hlakka rosalega til að fara og það verður næs að vera bara við tvö,“ segir Ólöf Erla.

 

„Ég ákvað snemma í ferlinu að vera opin um veikindi mín á samfélagsmiðlum, tala um ferlið og fela ekkert og það hefur hjálpað mér helling andlega og ég hef fengið mikið af jákvæðum skilaboðum og peppi frá fólki sem þakkar mér fyrir að vera svona opin. Ég get ekki lýst því hvað ég er þakklát fyrir vinkonur mínar, fjölskyldu mína og manninn minn sem er bestur í heimi. Hann er mjög skilningsríkur og við þekkjum hvort annað svo vel að hann sér strax á mér ef ég er þreytt og hann skynjar alveg orkuna mína, og ég hans. Við segjum hvort öðru reglulega hvað við erum heppin að hafa orðið ástfangin af hvort öðru, átt son okkar, börnin mín og heimili og að allt hafi farið svona vel, að ég hafi fengið krabbamein og það hafi gengið svona vel.“