Hlabbað fyrir Ljósið
Ólöf Erla tók fyrst þátt í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2008 þegar hún og vinkona hennar fóru í miðbæinn til að hvetja áfram og taka á móti þriðju vinkonunni sem hljóp hálfmaraþon. „Síðan fórum við á Vegamót og fengum okkur bjór. Og þá ákváðum við að taka allar þátt ári seinna, gerðum það og hlupum 10 km. Ég hljóp síðast 2017, var ólétt 2018, með lítið barn 2019 og svo kom COVID og ekkert maraþon var haldið,“ segir Ólöf Erla.
„Ég hef allt mitt líf gert allt sjálf, enginn hjálpað mér, flutti snemma að heiman og kom mér sjálf í gegnum nám. Ég hef alltaf verið listræn og skapandi og þakklát fyrir allt sem gengur vel, þakklát fyrir fjölskylduna mína, vini, vinnuna mína og núna líkamann minn hvað hann hefur staðið sig vel. Og eftir þetta verkefni mitt hvað ég er þakklát fyrir Ljósið. Þegar þau fóru að auglýsa Reykjavíkurmaraþonið þá fann ég að mig langaði að taka þátt og gefa tilbaka. Ég fann eftir aðgerðina hvað orkan var að koma tilbaka og ég líka búin að vera í æfingum hjá Ljósinu og dugleg að hreyfa mig með því að fara út að labba,“ segir Ólöf Erla, sem skráði sig í 10 km.
„Ég ákvað að labba 10 km sem ég ákvað að kalla Hlabba, af því ég fer út að labba og hleyp aðeins með. Ég byrjaði að safna og setti markið í 100.000 kr., sem náðist á fyrsta sólarhring, þannig að ég hækkaði í 200.000 kr. Sem náðist á þremur dögum og ég endaði á að safna 550.000 kr. og peppaði fjölskyldu og vini að koma með mér. Börnin mín, mamma og bróðir minn og mágkona, vinkonur og fleiri á Íslandi, Svíþjóð og Spáni. Við vorum um 25 í skærbleikum bolum sem ég hannaði, með eitt brjóst og eitt strik framan á, og nafn og merki Ljóssins framan og aftan á. Þetta var geggjað en ógeðslega erfitt. Ég var 1 klukkustund og 50 mínútur að hlabba þetta, metið mitt er 60 mínútur og ég hef alltaf ætlað að fara undir því. Ég bara á það eftir. Við vorum ekkert að flýta okkur, vorum bara að njóta okkar, dansa og hafa gaman. Ein vinkona mín hljóp fram og tilbaka, hún hljóp 16 km í heildina. Þegar ég var komin í Tryggvagötu var engin orka eftir, vinkonur mínar héldu utan um mig, svo hlupum við allar hönd í hönd niður Lækjargötu. Mér fannst markið aldrei nálgast. Þannig að þegar ég kom loksins í mark þá brotnaði ég niður af gleði að geta þetta, átta mánuðum eftir að ég greindist með krabbamein. Og gat gert eitthvað til að segja takk við Ljósið og mig langar að gera eins mikið og ég get til að hjálpa Ljósinu og vekja athygli á því og vona að ég sé að gera það. Ég tala reglulega um þau og kannski heyrir mig einhver segja frá þeim sem þarf seinna á Ljósinu að halda eða einhver honum nákominn.“
Næg verkefni til bættrar heilsu
Læknisfræðilegri meðferð er lokið en Ólöf Erla segir að næg verkefni séu hins vegar framundan í eftirmeðferð og að ná góðri líkamlegri og andlegri heilsu aftur af fullum styrk og í það ætli hún að gefa sér góðan tíma. „Ég hef tækifæri til að hugsa um heilsuna núna, hef sagt nei við öllum verkefnum og það eru allir mjög skilningsríkir. Ég er búin að leigja stúdíóið út til áramóta. Svo byrjar grafískur hönnuður á móti mér hér á efri hæðinni eftir áramót. Ég er búin að ákveða að ég ætla ekki að vinna svona mikið aftur. Núna tek ég morgnana fyrir mig til kl. 10, fæ mér kaffibolla, fer í göngu, ræktina eða nudd og hugsa vel um líkamann minn, hann á það skilið,“ segir Ólöf Erla.
„Krabbameinið mitt var hormónajákvætt. Næstu þrjú ár fer ég á fjögurra vikna fresti á Brjóstamiðstöð og fæ sprautu í magann, sem er eins og kjöthitamælir á stærð. Ég tek andhormón daglega í fimm ár og þeim fylgja miklir liðverkir, það er eins og þú sért með harðsperrur í öllum liðum og ef ég sit of lengi stirðna ég öll upp. En mér finnst þetta ekki það vont að ég geti ekki þraukað þetta. Það er talað um að ef meinið tekur sig ekki upp innan fimm ára þá er maður laus. Á sex mánaða fresti næstu þrjú ár fer ég í lyfjagjöf til að fá beinþéttnilyf, þá mæti ég á lyflækningadeild og lyfjagjöfin er klukkustund að renna í gegn. Og ég er slöpp í 2-3 daga á eftir. Þetta er hellingur andlega og líkamlega sem er eftir, ef maður heldur að þetta sé búið þegar virk meðferð er búin þá er það ekki þannig. Ég ætla að gefa mér tíma og koma sterkari tilbaka, frekar en að brotna kannski andlega og líkamlega niður. Ég hef tækifæri til þess að gefa mér tíma og ætla þess vegna að nýta það.“
20 ár eru síðan Ólöf Erla útskrifaðist sem grafískur hönnuður og segist hún hafa málað stöðugt námsárin þrjú. „Ég er að hugsa að byrja á því aftur núna að mála og skapa og næra sálina, hlusta á tónlist og sögur. Ég ætla að fara á myndlistarnámskeið í Ljósinu eftir áramót af því mig langar að fara í Ljósið, spjalla við jafningja og vera að mála,“ segir Ólöf Erla.
Hún segir að þegar hún hafi verið veik hafi þau hjónin látið sig dreyma um hvað þau vildu gera eftir að veikindunum lyki. „Við elskum góðan mat og gott vín og ég sagði við Silla að ég hefði aldrei komið til París. Og hann sagði að við myndum fara þangað þegar mér yrði batnað. Við erum að fara fyrstu helgina í nóvember og völdum þá helgi af því Sigur Rós er að spila á föstudeginum, Silli hefur túrað með þeim í 18 ár. Silli spurði Kjartan hvort þeir væru til í að spila í brúðkaupinu okkar þannig að hljómsveitin mætti öll og spilaði fyrir okkur. Við erum búin að panta borð á tveimur veitingastöðum .og svo ætlum við bara að njóta okkar. Jonathan Duffy vinur minn sem bjó á Íslandi í fimm ár býr núna í París ásamt Nathan manni sínum sem er franskur og þeir eru að skipuleggja sunnudaginn. Ég hlakka til að upplifa eitthvað sem við myndum ekki vita af, en Parísarbúar þekkja. Við ætlum að fara í listamannahverfið Montmartre, þar er markaður á laugardögum og mikið af listamönnum. Silla langar líka að sjá Eiffel-turninn, hann hefur komið oft til Parísar en aldrei náð að sjá hann. Ég hlakka rosalega til að fara og það verður næs að vera bara við tvö,“ segir Ólöf Erla.
„Ég ákvað snemma í ferlinu að vera opin um veikindi mín á samfélagsmiðlum, tala um ferlið og fela ekkert og það hefur hjálpað mér helling andlega og ég hef fengið mikið af jákvæðum skilaboðum og peppi frá fólki sem þakkar mér fyrir að vera svona opin. Ég get ekki lýst því hvað ég er þakklát fyrir vinkonur mínar, fjölskyldu mína og manninn minn sem er bestur í heimi. Hann er mjög skilningsríkur og við þekkjum hvort annað svo vel að hann sér strax á mér ef ég er þreytt og hann skynjar alveg orkuna mína, og ég hans. Við segjum hvort öðru reglulega hvað við erum heppin að hafa orðið ástfangin af hvort öðru, átt son okkar, börnin mín og heimili og að allt hafi farið svona vel, að ég hafi fengið krabbamein og það hafi gengið svona vel.“