Hvað er hreyfiflæði?
Hreyfiflæði er æfingakerfi sem kemur frá Danmörku og kallast Fysio Flow á dönsku. Hreyfiflæði er þróað út frá vísindalegri þekkingu á taugalífeðlisfræði af sjúkraþjálfaranum Pernille Thomsen. Hreyfiflæði gengur út á að hreyfa og liðka til bandvefinn í líkamanum okkar. Markmiðið er að mýkja upp og gera bandvefinn eftirgefanlegri og hreyfanlegri, minnka bólgur, auka vökvaflæðið í gegnum bandvefinn, flýta fyrir hreinsun af aukaefnum/óhreinindum sem fara í gegnum bandvefskerfið okkar.
Í Hreyfiflæði er unnið með liðkandi æfingar í gegnum allan líkamann, þar sem eru gerðar margar endurtekningar af sömu hreyfingunni í rólegum takti. Unnið er í æfingum með líkamann í öllum stöðum, það er standandi, sitjandi, á fjórum fótum og í liggjandi stöðu. Bandvefnum er skipt upp í sex mismunandi brautir og vinnur hver braut sem ein heild og eru æfingarnar sem eru gerðar hugsaðar út frá þessum brautum. Æfingarnar sem gerðar eru snúast því um að nota þá hreyfiferla sem eru líkamanum eðlislægir en ekki að vinna með réttar hreyfibrautir.
Í hreyfiflæði er mikilvægt að leyfa önduninni að fljóta/flæða eðlilega með, og stjórnar hver og einn þáttakandi sínum hreyfingum út frá eigin getu. Hverjum tíma lýkur með stuttri slökun þar sem athygli er beint að öndun og reynt er að ná ró yfir líkamann.
Tilgangurinn með tímunum er að auka eða viðhalda hreyfiferlum og minnka verki í líkamanum. Hreyfiflæði hefur einnig jákvæð áhrif á stöðuskynið hjá okkur.