Elti ástina til Íslands
Alice er fædd og uppalin í Ottawa í Kanada. Þar kynntist hún manninum sínum, Kára Eiríkssyni, sem stundaði nám í arkitektúr. „Ég er búin að búa á Íslandi í 30 ár, við búum í Hafnarfirði, ég er hönnuður, myndlistarmaður, leikkona, ég geri ýmislegt, er móðir, amma, ég er bara allt saman,“ segir þessi lífsglaða og opinskáa kona. Til gamans má geta þess að Eliza Reid, forsetafrúin okkar, er líka frá Ottawa og hafa þær Alice þekkst lengi. „Kanada er æðislegt og mín fjölskylda býr þar, en heimilið mitt er þar sem mínir nánustu eru og það er á Íslandi. Við förum bara í heimsókn til Kanada, sem er auðvelt.“
Eftir greininguna þá segist Alice hafa látið alla fjölskylduna í Kanada vita af því að hún væri með krabbamein, hún fór einnig í rannsókn vegna BRCA1 en meinið reyndist ekki arfgengt. „Kannski á ég bara rosalega margar frænkur en það kom í ljós að fimm þeirra hafa fengið brjóstakrabbamein og ég hafði ekki hugmynd um það. Stuttu eftir að ég lauk geislameðferðinni þá lét pabbi mig vita að fimmta frænkan hefði greinst með brjóstakrabbamein á eftir mér, þannig að ég hringdi í hana og sagði að ef ég gæti gefið henni einhverjar upplýsingar þá skyldi hún bara spyrja. Þekking og vitneskja er grundvallaratriði í þessum aðstæðum og að deila því með öðrum. Síðan ég greindist þá hef ég sagt með háum rómi hvar sem ég get í viðtölum og annars staðar að konur eigi að fara í skimun. Ég er málglöð líka,“ segir Alice og skellihlær.
Hvernig tilfinning var að fá greininguna? „Við hjónin héldumst í hendur á Brjóstamiðstöðinni og ég man ekki hvað ég sagði, en við fórum bæði að skellihlæja. Auðvitað var hann dauðhræddur, ég sá þetta meira sem óþægindi, ég er með hluti sem ég þarf að gera! En við ákváðum að þetta væri verkefni sem við myndum fara í gegnum saman. Yngri sonur okkar var í skóla í Danmörku, eldri fluttur að heiman, þannig að við hjónin vorum heima í búbblu að eiga við þetta verkefni í miðju COVID. Arkitektastofa mannsins mín er á neðri hæðinni heima hjá okkur og mitt fyrirtæki er rétt hjá. Ég var með lifandi plöntur í búðinni þannig að ég þurfti að fara einu sinni í viku að vökva þær og stundum var það eina verkefnið sem ég setti mér þá vikuna. Fókusinn var bara að fara í gegnum krabbameinsferlið. Þetta er verkefni sem ég þarf að fara í gegnum þetta og ljúka,“ segir Alice sem er núna byrjuð í langtímameðferð.
„Ég tek pillu daglega sem róar mig ekki mjög mikið. Dagarnir og sársaukinn er mismunandi, stundum finn ég fyrir miklum sársauka frá liðum og slíkt, aðra daga er ég skárri. Ég ætla að gefa þessu tíma af því pillan heldur mér á lífi. Ég ætla ekki að hætta að fara í búðina mína, eða hanna, ég þarf bara að aðlagast, sem ég á svolítið erfitt með. Ég á til að halda áfram alveg þangað til ég er búin á því og átta mig á því að ég hefði átt að hætta miklu fyrr. Ég var alltaf á 200% hraða, ég elska allt sem ég geri, hugsa um barnabörnin. Það er svo margt gott sem ég vil halda áfram að gera, en ég þarf að forgangsraða. Sem dæmi ef það eru þrír hlutir sem ég ætla að gera en mig langar líka að fá barnabörnin í gistingu, þá er ég ekki að fara að gera þessa þrjá hluti,“ segir Alice.
„Síðasta ár var skrýtið ár, 1. ágúst byrjaði ég í lyfjameðferð, skurðaðgerð í desember og geislameðferðin var í mars. Lyfjameðferð átti að vera á þriggja vikna fresti, en þar sem meinið hafði dreift sér var ég á tveggja vikna fresti. Mér fannst ég alltaf vera í lyfjameðferð. Þetta var mikið. Ég lauk geislameðferðinni í mars 2022. Og svo fékk ég COVID. Ég veit að ég fór í gegnum þetta allt og það var mjög erfitt, en sumt er ég búin að blokka í burtu. En ég segi brosandi að ég er lifandi. Og þó ég færi ekki neitt annað þá gat ég alltaf mætt í Ljósið og fundist ég örugg. Stuðningsnetið mitt hefur verið dásamlegt og það var æðislegt að hafa Ljósið.“
Hvar fréttir þú af Ljósinu? „Mér var sagt frá Ljósinu líklega á einhverri biðstofunni eða ég greip bækling þar, af því maður er alltaf á biðstofu á þessum stað í ferlinu. Og læknarnir sögðu mér að Ljósið væri úrræði fyrir mig. Ég var enn bara að fara í alls konar rannsóknir og ekki byrjuð í neinni meðferð þegar ég mætti fyrst í Ljósið. Ég byrjaði í ræktinni, fór á námskeið, hitti og talaði við fólk. Ég ákvað að mitt bataferli myndi hefjast strax með því að mæta í Ljósið, ég þyrfti ekki að verða veikari áður en ég myndi mæta. Auðvitað var ferlið upp og niður en ég held að af því ég mætti svo snemma í Ljósið þá er þetta eins og koma heim. Ég hef ekki komið heim í smátíma, má ég koma í mat?“ segir Alice og hlær. „Ég spyr stundum sjálfa mig hvort ég eigi að skammast mín fyrir að hafa ekki mætt í smá tíma, svo kem ég hingað og það skiptir engu máli. Líðanin hjá manni er mismunandi, stundum er maður grátandi, aðra stundina hlæjandi og svo er maður með fullt af spurningum og þá er alltaf einhver hérna sem getur svarað þeim. Þú ferð að þekkja fólkið og veist hver gæti svarað spurningum þínum. Þetta er bara eins og að fá svör á krana!“