Vorið 2022 leitaði Landsspítalinn eftir samstarfi við Ljósið við að koma á skipulegu verklagi varðandi skjólstæðinga sem fara í stofnfrumumeðferð. Ástæða þótti til að halda betur utan um þennan hóp vegna undirbúnings fyrir stofnfrumumeðferð og endurhæfingar í kjölfarið. Með aukinni þekkingu og fleiri rannsóknum er orðið ljóst að þeir sem eru í góðu líkamlegu formi og vel undirbúnir fyrir slíka meðferð vegnar betur í kjölfarið. Við í Ljósinu tókum erindinu fagnandi enda hafa margir úr þessum hópi valið að koma í endurhæfingu í Ljósinu á einhverjum tímapunkti í endurhæfingaferlinu.
Nú er þeim sem þurfa í stofnfrumumeðferð vísað beint til Ljóssins í gegnum Heilsugátt þar sem áhersla er á að koma endurhæfingaferlinu sem fyrst í gang. Eins og hjá öðrum skjólstæðingum í Ljósinu byrjar endurhæfingaferlið með viðtali hjá iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara. Þá er sett upp dagskrá endurhæfingar fyrir líkamlega og sálfélagslega endurhæfingu í samvinnu við einstaklinginn. Eftirfylgd er regluleg þar sem endurhæfingarþarfir eru metnar á hverjum tíma og dagskrá endurhæfingar uppfærð. Hvenær útskrift úr endurhæfingunni er tímabær er metið á einstaklingsgrunni.
Eðlilega verður hlé á endurhæfingu meðan viðkomandi er inniliggjandi vegna stofnfrumumeðferðar. Ef notast er við eigin stofnfrumur er meðferðin framkvæmd hérlendis og innlögn yfirleitt 3-4 vikur. Ef einstaklingur getur ekki nýtt eigin stofnfrumur fer meðferðin fram erlendis og ferlið tekur þá lengri tíma. Þegar starfsemi beinmergsins kemst aftur í eðlilegra form, blóðgildi verða eðlilegri og ónæmiskerfið hefur styrkst, hefst endurhæfing í Ljósinu aftur. Framundan er margra mánaða vinna við að ná aftur upp fyrra þreki og styrk. Sumir fara í fjögurra vikna ferli á Reykjalundi um tveimur mánuðum eftir stofnfrumuskipti en halda svo áfram í endurhæfingu í Ljósinu ef þörf þykir.
Við sem höldum utan um þennan hóp erum vakandi fyrir því að taka eftir og safna upplýsingum um hvort það sé eitthvað sérstakt sem taka þarf tillit til í ferlinu í Ljósinu.
Við gleðjumst yfir því að geta tekið þátt í að styðja enn betur við fleiri sem greinast með krabbamein sem fyrst eftir greiningu. Við viljum að þegar greining liggur fyrir þá sé það sjálfsagður hluti af ferlinu að fara í endurhæfingu.