Verkefnið „Út með gæruna“ með 70 Minions

Höfundur

Ragna Gestsdóttir

Ljósmyndari

Mummi Lú

Árni Magnússon greindist í lok sumars með krabbamein í hálskirtli. Hann segist einstaklega heppinn með að hafa verið greindur strax og verið gripinn af læknum, fjölskyldu sinni og vinafólki. Árni ákvað frá fyrsta degi að taka leiðsögn líkt og hann hefur gert í edrúmennsku sinni, líta á meinið og ferlið sem verkefni sem fékk strax nafn, sem er kunnuglegur frasi úr einni vinsælustu gamanmynd íslendinga, Stellu í orlofi.

„Það fyrsta sem mér datt í hug var: „Þetta er bara búið, það er komið að endanum. Alveg týpískt að vera að nálgast starfslok eftir 7-10 ár og þá ætla ég að gera eitthvað og ég hugsaði með mér að sá kafli næst ekki, jæja það verður að hafa það, ég er búinn að eiga fínt líf. Ég var alveg þarna í hugsun.“   

„Ég tók strax þann pól í hæðina að ég hringdi í alla vini mína og ættingja, tók bara mánudagseftirmiðdag í það og sagði fólki hvernig staðan væri. Læknarnir sögðu að það liti ekkert út fyrir annað en meinið væri staðbundið, þeir vildu taka sýni úr einum eitli og svo færi ég í segulómun, þannig að ég hugsaði: „Ok þetta er þá staðbundið og við tæklum þetta út frá því,“ segir Árni og bætir við að síðan hafi liðið rúm vika þar til niðurstöður úr segulómuninni staðfestu greininguna. „Þá kom staðfesting á að meinið er staðbundið í öðrum hálskirtlinum og hefur ekki dreift sér sem var rosalegur léttir og ég gat sett niður fyrir mig að þetta væri verkefni og ef guð lofar verkefni sem á sér upphaf og endi. Og ég er búinn að tækla þetta þannig allan tímann. Ég kem úr banka- og verkfræðiumgjörð og passa engan veginn í þá umgjörð sjálfur af því ég er meiri bóhem en ég vil vera láta. Ég sagði strax: „Þetta er verkefni og það er komið nafn á það sem er tilvísun í Stellu í orlofi og það er „Út með gæruna.“ Það er verkefnið mitt. Og út á það gengur þetta hjá mér.“ 

 

Árni er mörgum kunnur úr stjórnmálum en hann gengdi stöðu félagsmálaráðherra árin 2003-2006. Árni er fæddur 4. júní 1965, sonur hjónanna Magnúsar Bjarnfreðssonar og Guðrúnar Árnadóttur. „Við erum þrjú alsystkini, ég, Páll og Ingibjörg og eldri hálfbróðir Guðjón. Ég er giftur Berglindi Bragadóttur og við eigum fimm börn til samans en ekkert saman, sem eru á aldrinum 21-39 ára, fimm barnabörn og búum í Garðabæ,“ segir Árni. 

 

„Þegar ég hætti í pólitík 2006 réði ég mig til Íslandsbanka sem viku seinna varð að Glitni og fór að vinna með fjármögnun endurnýjanlegrar orku og hef síðan unnið með verkefni sem tengjast nýtingu jarðhita, bæði hér heima en lengst af erlendis með útflutningi á íslenskri sérþekkingu. Árið 2013 fór ég úr bankanum til Mannvits verkfræðistofu og var framkvæmdastjóri markaðskjarna orku, við fluttum til Búdapest 2016 og bjuggum þar í fjögur ár og meðfram vinnu ákvað ég að bæta við mig námi og tók mastersgráðu í alþjóðaviðskiptum. Svo var COVID-árið mikla 2020, við bjuggum úti og allt að fara í lás og ég sá auglýsta stöðu hér heima sem ég gat vel hugsað mér að sinna ef ég fengi hana og sótti um forstjórastöðu hjá ÍSOR, íslenskum orkurannsóknum sem er ríkisstofnun á þessu sviði, fékk hana og hef verið þar síðan,“ segir Árni aðspurður um hvert leið hans lá eftir pólitíkina. 

 

Með 70 kaótíska Minions í ferlinu

 

Árni fann fyrst fyrir óþægindum í hálsi í lok ágúst síðastliðið sumar, en taldi í fyrstu að það væri hefðbundin hálsbólga sem væri að láta á sér kræla. „Svo er það blessaður krabbinn,“ segir Árni beðinn um að lýsa fyrstu einkennum. „Ég var á leið í veiðiferð með vinum mínum og á föstudeginum fannst mér eins og ég væri að fá hálsbólgu og segi við Berglindi að ég trúi ekki að ég sé að veikjast rétt fyrir veiðina. Ég fann fyrir þessu alla helgina en varð ekki lasinn, svo kom ég heim og á miðvikudeginum var þetta enn eitthvað að trufla mig. Ég var síðan að bursta í mér tennurnar um kvöldið og ræskti mig hraustlega og ég fann að losnaði um eitthvað í hálsinum, ég spýtti í vaskinn og það kom blóð og ég hugsaði að það væri nú ekki eðlilegt,“ segir Árni, sem tók upp símann og fór að lýsa upp í sig til að kanna hvað væri  að.

 

„Ég sá að annar hálskirtillinn var helvíti ófrýnilegur. Kallaði í Berglindi sem vildi að ég færi upp á læknavakt, en ég eins og ekta karlmaður svaraði að það væri alveg að loka þar. Morguninn eftir rak hún mig í að hringja í heimilislækni og ég vil meina að við erum svo heppin að vera á einkarekinni heilsugæslustöð þar sem ég get alltaf náð í lækni,“ segir Árni sem fékk tíma klukkutíma eftir að hann hringdi. Eftir skoðun heimilislæknisins var Árna greint frá því að líklega væri um mjög svæsna streptókokkasýkingu með hálskirtilssteinum að ræða, hann settur á sterkt pensilín og beðinn að hringja ef hann yrði ekki betri á þriðjudag, fimm dögum síðar.

 

„Sem ég var ekki og eins og sönnum karlmanni sæmir þá hefði ég líklega beðið aftur nokkra daga í viðbót nema Berglind rak mig aftur til að hringja strax. Þá sagði læknirinn mér að koma á fimmtudag, síðan hringdi hún aftur korteri seinna og sagðist hafa rætt við kollega sinn á Landspítalanum sem gæti hitt mig morguninn eftir. Þá er tæp vika liðin frá því ég fann fyrst fyrir þessu og ég áttaði mig fljótlega á því þegar leið á okkar samtal að það væri ekki víst að þetta væru streptókokkar. Og ég sagðist vilja tala íslensku: „hvað erum við að tala um?“ Læknirinn sagði að þetta liti ekki nógu sýkingarlega út og sagðist vilja taka sýni og senda í ræktun,“ segir Árni sem segist hafa haldið áfram að spyrja lækninn. 

 

„Hvað þýðir það?“  

„Það gæti þýtt að þetta sé æxli.“

„Og hvað þýðir það?“  

„Það gæti verið illkynja og líka góðkynja.“

„Og hvað ef það er illkynja?“

„Árni við skulum ekki fara þangað alveg strax.“  

 

„Ég sagði við lækninn að ég vildi vita allt og þá sagði hann mér hvað tæki við. Hann sagðist vilja hraða sýninu eins og hann gæti og gaf mér tíma á mánudag. Þá tók við þetta sem ég held að flestum í þessum sporum þyki það erfiðasta, það er óvissan og biðin. Það fer ótrúlega mikið magn af rugli í gegnum hausinn á manni á þessum tíma og ég byrjaði að gúggla. En stoppaði mig svo strax af og ákvað að finna eina góða grein og fann slíka frá John Hopkins háskólanum í Boston í Bandaríkjunum. Þannig að ég gat lesið mér aðeins til um hvað tæki við ef þetta væri krabbamein í hálsi.“

 

Árni segir einnig að á þessari stundu hafi hugur hans reikað í þá átt að meinið myndi draga hann til dauða og hvernig hann myndi skilja eiginkonu sína og börn eftir. „Það fyrsta sem mér datt í hug var: „Þetta er bara búið, það er komið að endanum. Alveg týpískt að vera að nálgast starfslok eftir 7-10 ár og þá ætla ég að gera eitthvað og ég hugsaði með mér að sá kafli næst ekki, jæja það verður að hafa það, ég er búinn að eiga fínt líf. Ég var alveg þarna í hugsun,“ segir Árni. „Og fór svona að skoða með sjálfum mér: „hvernig stöndum við, hvernig er fjárhagurinn, hvernig skil ég við, hvernig skil ég konuna eftir?“ Og hún vissi ekkert af þessum hugsunum enda sagði ég við hana að hafa ekki áhyggjur af þessu þetta væru bara streptókokkar,“ segir Árni og bætir við að hann hafi talið að biðin eftir niðurstöðu yrði erfið. 

 

„En þetta gerðist rosalega hratt. Á mánudagsmorgni var ég komin á háls-, nef- og eyrnadeild og þá var bara rúm vika liðin frá því ég hitti heimilislækninn.  Ég er búinn að segja frá fyrsta degi að ég sé heppinn. Berglind kom með mér og læknirinn, Árni Johnsen, vissi hvernig ég vildi taka á móti niðurstöðunni og tilkynnti okkur að um krabbamein væri að ræða. Og þá var rosa skrýtið að fyrsta hugsun var: „af hverju ekki ég, nú tæklum við þetta,“ segir Árni, en segir konu sína hafa brotnað gjörsamlega niður enda átti hún ekki von á slíkri niðurstöðu.

 

„Þessi fundur er í pínu móðu en ég fór í skoðun og ómskoðun og Árni og Þorsteinn kollegi hans sögðu mér, sem var ólíkt því sem ég hafði lesið í rannsókninni frá John Hopkins, að meinið yrði ekki skorið. Hins vegar færi ég í geislameðferð og lyfjameðferð sem væri krefjandi og ég skyldi búa mig undir að hún yrði mjög erfið. Ég fer í geisla daglega í sjö vikur og lyf einu sinni í viku með því. Þannig að ég fékk planið strax. Þetta er HPV-veira sem veldur þessu krabbameini, líkt og krabbameini í leghálsi kvenna. Læknarnir sögðu mér að það væri að einhverju leyti betra en þetta týpíska krabbamein, þar sem auðveldara væri að drepa það. Meðferðin gengur út á að brenna æxlið og ég fæ svolítinn roða bæði utan á hálsinn og inn í kok. Og þetta er í slímhúð þannig að ég finn alveg fyrir þessu. En aftur er ég heppinn, ég er hálfnaður með meðferðina og finn þó ekki meira fyrir henni en það að ég get talað. Ég get reyndar ekki borðað fasta fæðu lengur, mér finnst allt bragðast eins og skítugur vikur á bragðið og áferðin líka skrýtin þannig að ég er kominn á næringardrykki og finnst það ekkert mál. Nú keppi ég að því að taka inn nógu mikla næringu til þess að reyna að forðast sonduna, það er svona markmiðið núna.“

 

Árni þurfti einnig að hitta talmeinafræðing, næringarfræðing, fara í heyrnarmælingu og til tannlæknis. „Mér var sagt að það gæti orðið ákveðinn flöskuháls af því að það þarf að skoða allar tennur og ef einhverjar væru ekki í lagi þá þyrfti að lagfæra þær  áður en ég færi í geislana. Og upp á sjúkratryggingar að gera ef eitthvað myndi klikka í meðferðinni þá lægi það fyrir að það væri af völdum geislana. En ég var svo heppinn, ég var búinn að láta taka stellið í gegn í Búdapest,“ segir Árni og hlær.

 

„Þremur vikum eftir greininguna hitti ég síðan Vöku Ýr krabbameinslækninn minn og hún lagði upp planið. Það þurfti líka að búa til grímu á mig sem var sérstök upplifun. Stórt, heitt, hvítt plastspjald var lagt á andlitið og mótað eftir því og bara eitt gat á grímunni fyrir nefið svo ég gæti andað. Svo er þetta látið harðna og í geislunum þá er ég strappaður niður á bekk svo ég geti ekki hreyft mig millimeter og gríman lögð yfir andlitið. Mér fannst þetta pínu kvíðvænlegt í upphafi en svo hefur það ekki reynst neitt mál. Svo er ég svo klikkaður, mælieiningar á geislunum eru Gray, eitt eða tvö. Ég fæ tvö Gray í hvert skipti þannig að ég fæ 70 Gray í gegnum meðferðina þannig að ég fór að tengja það við aula, sem er Minions. Þannig að ég fæ tvo Minions í hvert sinn og núna er ég búinn með 34 og 36 á leiðinni og þeir eru algjörlega kaótískir og vita ekkert hvað þeir eiga að gera fyrr en þeir ná allir saman og þá klára þeir verkefnið. Þeir eru núna með mér í verkefninu Út með gæruna. Þannig að ég tek þetta svolítið svona og er aftur rosalega heppinn, það hefur ekki komið að mér mikill kvíði. Það hefur ekki komið að mér hræðsla, ég einhvern veginn trúi því að þetta sé svona verkefni og ef annað kemur í ljós þá er það nýtt verkefni, “ segir Árni brosandi. 

 

„Mælieiningar á geislunum eru Gray, eitt eða tvö. Ég fæ tvö Gray í hvert skipti þannig að ég fæ 70 Gray í gegnum meðferðina þannig að ég fór að tengja það við aula, sem er Minions. Þannig að ég fæ tvo Minions í hvert sinn og núna er ég búinn með 34 og 36 á leiðinni og þeir eru algjörlega kaótískir og vita ekkert hvað þeir eiga að gera fyrr en þeir ná allir saman og þá klára þeir verkefnið. Þeir eru núna með mér í verkefninu Út með gæruna.“ 

Árni með 94 sm sjóbirting úr Tungulæk í Landbroti.

Árni og Berglind í Skagafirði haustið 2022.

„Það hafa komið tveir dagar þar sem ég gat ekki talað og það er svona eina bakslagið i verkefninu. Svo bara vaknaði ég daginn eftir og hef ekki hætt að kjafta síðan. Ég sagði nú við vini mína þegar ég get ekki talað að það kæmist þá annar að.“

Ráðlagt af vini að fara strax í Ljósið

 

Mánudagseftirmiðdaginn sem Árni hringdi í vini sína og fjölskyldu og sagði þeim frá greiningunni ráðlagði einn af vinum hans honum að fara í Ljósið. „Kjartan Smári, einn af mínu góðu vinum, sagði mér að fara bara strax í Ljósið. Móðir hans hefur verið mikið hér og hann fylgt henni í gegnum það ferli og fylgst með. Ég er óvirkur alki og hef verið síðan 1986 og smám saman þá læddist að mér það sem hefur reynst mér best í mínum alkóhólisma, og ég hef verið edrú allan tímann, það er grunnurinn að því að taka leiðsögn. Þannig að ég hugsaði með mér að best væri að ég tæki leiðsögn Kjartans og færi í Ljósið,“ segir Árni sem skráði sig á heimasíðu Ljóssins þá um kvöldið og var í sömu viku mættur í viðtal hjá Hólmfríði Einarsdóttur iðjuþjálfa.

 

„Mín fyrsta hugsun var að þetta væri bara einn geisli á dag og eitt lyf á viku og ég myndi bara halda áfram að vinna og halda minni rútínu, þetta yrði ekkert mál. Konan mín var ekki alveg sannfærð. Ég var alltaf að segja að ég væri ekki að hugsa þetta út frá vinnunni minni, þó mér þyki vænt um hana og ég beri mikla ábyrgð, ég væri að hugsa þetta út frá hausnum á mér, að halda sönsum, halda rútínu. Hólmfríður spurði mig einmitt út í þetta og ég tók þessa ræðu á hana. Hún brosti góðlátlega og sagði marga vilja halda í rútínuna sem væri fínt en ég gæti sjálfur ákveðið í hverju mín rútína væri fólgin. Ég gæti unnið eitthvað en ég gæti líka ákveðið að vinna að heiman og breyta rútínunni. Þannig að í staðinn fyrir að mæta í vinnuna kl. 9 þá myndi ég mæta í Ljósið kl. 9, í staðinn fyrir að hreyfa mig ekki neitt, þá myndi ég mæta í tækjasalinn og fá prógramm, mæta á karlanámskeið. Ég leyfði þessum ráðum hennar að síast inn og aftur kom þessi hugsun um að mér hefði reynst vel að taka leiðsögn. Eftir nokkra daga var ég búinn að ákveða að fara meira og minna í leyfi frá vinnunni og einbeita mér að þessu verkefni og ég hef gert það. Ég hef aðeins unnið með, en ég læt þetta ganga fyrir og er töluvert mikið í Ljósinu,“  segir Árni. 

 

Hann hefur mætt á karlanámskeiðin hjá Matta Ósvalds, hjónin hafa farið í hjónaviðtal og dætur Árna á aðstandendanámskeið. „Ég fékk prógramm í ræktina sem ég hef getað stundað alveg fyrir utan einn dag í þessari viku. Það var einn morgunn sem ég var mikið að kúgast og missti af tímanum mínum. Mér finnst Ljósið gjörsamlega stórkostleg starfsemi. Þegar ég mætti fyrst og ætlaði að borga þá fékk ég svarið: „Þú borgar ekkert hér, það eru Ljósavinir sem sjá um það,“ og ég fór nánast grenjandi út. Prógrammið mitt er meðferð á Landspítalanum og í Ljósinu, það er bara þannig.“  

 

Árni hefur ekki nýtt sér handverkið en segist vel geta hugsað sér það síðar. „Mér finnst ég varla hafa tíma fyrir handverksnámskeiðin meðan ég er í meðferðinni. Ég er fluguveiðimaður og gæti alveg hugsað mér að kíkja á fluguhnýtinganámskeiðið. Ég fer út að labba daglega og þetta er bara nóg prógramm. Svo finn ég eftir því sem líður á meðferðina að ég þarf aðeins að hvíla mig og leyfi mér það bara að dotta aðeins í stólnum heima,“ segir Árni. 

 

„Þetta er svolítið magnað að þó við í Ljósinu séum öll veik og hvert og eitt að díla við okkar þá er þetta samt svo hvetjandi umhverfi. Ég var í ræktinni um daginn og þá var þar kona sem ég hafði aldrei séð áður, hún ljómaði öll og var á iði. Einn af þjálfurunum gaf sig á tal við hana og spurði hvernig hún hefði það og hún svaraði: „ég segi allt geggjað, ég er að útskrifast,“ segir Árni sem á þeim tíma var sjálfur nýgreindur. „Ég hugsaði að það yrði geggjað þegar ég yrði sjálfur á þessum stað.  Ég er með krabbamein sem fólk hefur látist úr og ég held að það sé mikilvægt að heyra og sjá þessar sigursögur. Það var sem dæmi einn sem kom á karlanámskeiðið sem var lengra genginn en ég með sams konar mein, en hefur náð sér. Í Búdapest var ég með viðskiptavin sem heitir Peter, sem greindist ári áður en ég flutti heim. Við héldum smá sambandi eftir það, síðan eftir mína greiningu hugsaði ég til hans og hann væri með sama krabbamein og ég. Þannig að ég hringdi í hann og það er ekkert til sem heitir tilviljanir, ég segi honum hvers kyns er og þá hafði hann þremur dögum fyrr verið hjá lækni, þremur árum eftir að hann var greindist, og var að fá þá niðurstöðu að hann væri krabbameinslaus. Peter hringir núna á hverjum laugardegi og tekur stöðuna á mér, hvetur mig til að borða, segir mér hvernig hann fór í gegnum þetta, hvernig hann sigraðist á hlutunum. Það skiptir svo miklu að grípa í þessar sigursögur.“

 

Hvetur vini og vandamenn til að trufla sig

 

Blaðamanni verður á orði að það sé hvorki að sjá né heyra á Árna að hann sé hálfnaður í verkefninu. „Já ég er ótrúlega hraustur, en það er reyndar misjafnt. Það hafa komið tveir dagar þar sem ég gat ekki talað og það er svona eina bakslagið i verkefninu. Svo bara vaknaði ég daginn eftir og hef ekki hætt að kjafta síðan. Ég sagði nú við vini mína þegar ég get ekki talað að það kæmist þá annar að,“ segir Árni kíminn.

 

Hvernig hefur þitt fólk tekið veikindum þínum? „Ótrúlega vel, við eigum stórkostlegt fólk að bæði fjölskyldu og vini. Tengdaforeldrar mínir og systkini Berglindar, systkini mín, börnin okkar og vinahópurinn, það eru allir boðnir og búnir og sýna það bæði í orði og verki. Kjartan  Smári og hans kona ákváðu að bjóða okkur hjónunum í mat á tveggja vikna fresti og það hefur haldið. Allt þetta er gott og hjálpar manni,“ segir Árni. Sjálfur hefur hann farið í gegnum krabbameinsgreiningu og veikindi sem aðstandandi og vinur. „Ömmur mínar sem ég kynntist hvorugri fóru báðar úr brjóstakrabbameini, pabbi fór á endanum úr krabbameini og það sem var okkur hjónunum erfiðast er að við erum núna á fjórum árum búin að missa tvo nána vini okkar úr krabbameini, segir Árni, sem segist hafa rætt það við eiginkonu sína að fólk megi vera óhrætt við að trufla hann og bjóða fram aðstoð sína.

 

„Það er enginn að trufla mig. Ef fólk hringir eða kíkir í heimsókn, það styttir allt daginn og gefur manni allt orku. Frekar en að fólk kunni ekki við að trufla og viti ekki hvað það á að segja, segðu bara sama og þú myndir segja ef ég væri frískur. Við þurfum ekki alltaf að tala um krabbamein. Svo þarf ég stundum að segja að það henti mér ekki núna að tala eða hittast og við heyrumst á morgun, og ég geri það alveg,“ segir Árni. Við ræðum það að fólk á okkar aldri á oft erfitt með að þiggja hjálp, hvað þá að biðja um hana. Og í aðstæðum eins og hans þá vandræðist fólk oft með hvort, hvenær og hvernig það eigi að bjóða fram aðstoð sína. 

 

„Ef þér finnst erfitt að bjóða mér hjálp, hvernig heldur þú að mér finnist að biðja um hana? Ég mun alveg örugglega taka þetta með mér inn í lífið þegar fólk í kringum mig mun lenda í krefjandi verkefnum þá er ekkert víst að það muni fá frið fyrir mér,“ segir Árni og hlær. 

 

Hann segir bæði vini og ættingja hafa komið heim til þeirra hjóna með sendingar, fólk þurfi ekki alltaf að mæta í heimsókn. „Frænka Berglindar kom með drykki og bækur og ég tek alltaf bók með í lyfin þannig að ég er að lesa bókina frá henni sem er mjög notalegt, ekki bara að lesa bókina heldur líka tengingin við hana. Bara þetta að finna að fólk er að hugsa til manns. Fólk er duglegt að hringja og spyrja hvernig ég hafi það, sem er mjög gott og notalegt. Við Berglind höfum alltaf átt góðan vina- og fjölskylduhóp sem ég held að okkur hafi tekist að rækta ágætlega, en þessi reynsla hvetur mann til að rækta tengslin enn betur. Fólkið manns er það mesta sem maður á, hvort sem það eru börn, barnabörn, ættingjar eða vinir, “ segir Árni og hvetur fólk að hafa samband frekar en ekki. „Það er þá mitt að segja ef ég er ekki í stuði og biðja fólk að hafa samband daginn eftir, ég treysti mér alveg til að stjórna því. Maður þarf að verða pínu egóisti og setja þetta verkefni í forgang, sem er þá í forgangi fram yfir allt annað.“

„Ég er búinn að setja mér markmið. Sem betur fer mætti ég í Ljósið áður en ég byrjaði í læknisfræðilegu meðferðinni þannig að það voru gerðar mælingar á mér hvað vöðvamassa, fitu og slíkt varðar. Þannig að ég veit hvar ég var staddur í byrjun verkefnisins og ég er búinn að setja mér það markmið að þegar ég útskrifast úr Ljósinu ætla ég að vera í betra formi en þegar ég byrjaði þar. Ég er ákveðinn í því að ég ætla að nýta mér áfram þjónustuna hér.“

Horfði í augun á kvikindinu

 

Árni segist þakklátur fyrir hversu fljótur tími leið frá því hann kenndi sér fyrst meins og þar til hann var greindur og hóf meðferð. „Ég er þakklátur fyrir að vera á þeim stað sem ég er í dag, af því meinið hefði líklega getað mallað í einhvern tíma og verið farið að dreifa sér og þá væri ég að takast á við öðruvísi verkefni. Ég var rosalega heppinn að vera gripinn strax. Ég fer á heilsugæsluna í Salahverfi og það hefði alveg verið hægt að afgreiða þetta sem hálsbólgu. Ég er líka sjálfur alveg þar að ég dreg það líka í lengstu lög að fara til læknis. En þegar ég horfði í augun á kvikindinu í speglinum þá sagði ég strax við Berglindi: „ég ætla að vona að þetta sé ekki æxli.“ Ég var bara búinn að finna svona aðkenningu að hálsbólgu en við þessa ræskingu þá var kominn aðskotahlutur í hálsinn á mér og ég fann fyrir honum. Núna er ég farinn að finna minna fyrir honum, ég finn að æxlið er að minnka. Þó bruninn sé að aukast og óþægindin í kokinu þá finn ég að æxlið er að minnka,“ segir Árni.

 

„Það hafa orðið framfarir í geislatækni, lyflækningum, skilningi og þekkingu og það hjálpar manni og skiptir máli. Ég held að þetta ferli hefði verið mun erfiðara ef ég hefði greinst fyrir 30 árum. Ég er með frábæran lækni og þegar ég hitti hana fyrst þá sagðist ég túlka meinið á frumstigi og hún sagði lækna vera að reyna að draga úr þessum skilgreiningum; 1., 2. og 3. stigs. Hún sagði við mig að ég væri með staðbundinn læknanlegan sjúkdóm. Og ég þurfti ekki að heyra meira. Þá var þetta verkefnið og ég velti því ekki meira fyrir mér. Ég veit hvernig prógrammið er: meðferðinni lýkur 16. nóvember, sex vikum seinna fer ég í segulómun og 12 vikum seinna í jáeindaskanna.“

 

Markmið að koma betri úr Ljósinu  

 

Aðspurður um hvort krabbinn hafi breytt einhverju í lífi hans og þá hverju svarar Árni: „Það er þá helst reglubundin hreyfing sem ég var aðeins búinn að missa niður og er búinn að koma aftur í farveg. Ég finn að ég er farinn að velta fyrir mér að það eru ákveðnir hlutir sem mig langar til að gera og svo get ég bætt við „áður en ég dey.“ Sem hljómar kannski klisjukennt, en það er bara þannig að  lífið er takmörkuð auðlind og ef það er eitthvað sem ég ætla mér virkilega að gera þá er bara best að gera það, það er þá ekki eftir. Og ég þarf þá ekki að sjá eftir því,“ segir Árni.

 

Hvað sérðu fyrir þér þegar meðferð lýkur? „Ég er búinn að setja mér markmið. Sem betur fer mætti ég í Ljósið áður en ég byrjaði í læknisfræðilegu meðferðinni þannig að það voru gerðar mælingar á mér hvað vöðvamassa, fitu og slíkt varðar. Þannig að ég veit hvar ég var staddur í byrjun verkefnisins og ég er búinn að setja mér það markmið að þegar ég útskrifast úr Ljósinu ætla ég að vera í betra formi en þegar ég byrjaði þar. Ég er ákveðinn í því að ég ætla að nýta mér áfram þjónustuna hér; ég er á framhaldskarlanámskeiði hjá Matta núna, vera duglegur í ræktinni, ég sé fyrir mér að fara á fluguhnýtinganámskeið og kastnámskeið enda mikill fluguveiðimaður. Ég held að það verði bara frábær upptaktur fyrir mig inn í vorið. Og bara að nýta mér þjónustuna í Ljósinu eins og ég get til að koma mér eins hratt og ég get á þann stað sem ég vil vera,“ segir Árni.

 

„Áhyggjur hafa aldrei hjálpað neinum. Ég á bara þennan dag, ég get lent fyrir bíl á morgun. Svo hjálpar mér að ég er búinn að vera edrú þetta lengi og hef alltaf verið virkur í mínu prógrammi sem gengur út á æðruleysi, einn dag í einu og að setja það í hendurnar á Guði sem ég ræð ekki við sjálfur. Og ég geri það og er búinn að gera það frá fyrsta degi. Ég hef ekkert um þetta ferli að segja nema fara eftir því sem mér er sagt.“