„Við þurfum að gera betur í brjóstaskimunum, síðustu tíu ár hefur þátttakan verið of léleg, við erum með rúmlega 50% mætingu,“ segir Ólöf og bendir á að í mars síðastliðnum hafi embætti landlæknis gefið út samantekt fyrir árið 2021. „Sem sýnir það að mæting í brjóstaskimun er undir 60% sem er alltof lág og léleg þátttaka. Það þarf að hafa meiri áhrif og hvetja konur til að mæta betur. Maður vill að þátttakan sé meiri.“
Ólöf segir að það séu örugglega nokkrir þættir sem hafi áhrif á að þátttakan er ekki eins góð og æskilegt er. „Brjóstaskimunin kostar í dag 5.072 kr. Það eru konur sem þurfa að forgangsraða peningum og velja að nota þá ekki í skimun. Jafnframt ætti að vera hægt með einföldum hætti að panta tíma á netinu en til að fá tíma í dag þarf kona að hringja á milli kl. 8.30-12.00 eða senda tölvupóst. Þetta er svolítið vesen og ég myndi alveg vilja hafa fyrirkomulagið þægilegra. Konur sem eru kallaðar í skimun eru á aldrinum 40-74 ára og meirihlutinn eru bara uppteknar konur sem eru í vinnu og þessi tími á morgnana ekki besti tíminn til að bíða í símanum. Í Svíþjóð fá konur sent bréf heim með fyrirfram ákveðnum tíma og ef þær geta ekki mætt þá eru þær beðnar að fara á netið og breyta tímanum. Auk þess er brjóstaskimun gjaldfrjáls í Svíþjóð.“
Hópleit brjóstaskimana er almenn fyrir konur á aldrinum 40-74 ára og er óháð fjölskyldusögu um krabbamein og annað. „Ég held að 40 ár sé fínn aldur til að hópleitin skili sínu, það átti að hækka aldurinn upp í 50 ára en því var harðlega mótmælt þegar skimunarráð mælti með að aldur yrði hækkaður. Ef um fjölskyldusögu eða áhættugen er að ræða, eins og BRCA1 og BRCA2 sem eru algengust, gilda aðrar reglur og lögmál og þá er um svokallað hááhættueftirlit að ræða. Aldur kvenna í slíku eftirliti er að lækka einfaldlega út af tilfellum sem eru að greinast fyrr. Skurðlæknar sjá fyrst og fremst um hááhættueftirlit og farið er eftir klínískum leiðbeiningum. Það er mismunandi til hvaða samtaka horft er hvað leiðbeiningar varðar, það er hvort það er til Svíþjóðar, til evrópsku krabbameinslæknasamtakanna eða til Bandaríkjanna,“ segir Ólöf.
„Hópleit fer fram hjá einkennalausum konum. Ef konur finna hnút í brjóstinu þá er ekki nóg að fara í hópleit, í henni er eingöngu tekin röntgenmynd sem segir ekki allt. Finni kona hnút þá þarf hún að fara í sérskoðun á brjósti. Þá er gerð brjóstamynd eins og gert er í hópleit, ómskoðun og klínísk skoðun auk sýnatöku ef eitthvað sést á myndrannsóknum. Því miður hefur það komið fyrir að konur hafi fundið hnút í brjósti og í góðri trú farið í hópleit, eða verið vísað í hópleit, sem er ekki nægileg uppvinnsla við einkenni frá brjóstum, og þannig hafa konur ekki ratað strax í rétt ferli. Þannig að það er mikilvægt að gera greinarmun á ferlinu eftir því hvort kona er einkennalaus eða finnur hnút í brjóstinu. Við erum að vinna í að gera ferlið betra og ég vona að það sé á réttri leið,“ segir Ólöf.
„Hópleitin er ekki 100% og því hefur ekki verið haldið fram. Einfaldasta rannsóknin sem hægt er að gera til að meta brjóstið er með hefðbundinni röntgenmynd. Hún er góð sem greiningartæki í hópleit, ef röntgenlæknir síðan sér eitthvað sem vekur grun þá er kona kölluð inn aftur í frekari skoðun. Hjá yngri konum er brjóstvefurinn þéttari og ef ung kona finnur einhvern hnút þá sést hann stundum ekki á röntgenmynd og þá þarf að gera aðrar rannsóknir eins og ómskoðun eða segulómskoðun af brjóstinu. Eftir því sem konur verða eldri þá sýna röntgenmyndir oft betur hnúta í brjóstum.“
En hvernig er Ísland að standa sig almennt þegar kemur að krabbameinsmeðferðum samanborið við önnur lönd? „Almennt erum við að standa okkur vel hvað meðferð varðar, en það hefur stundum áhrif hvað við erum lítil þjóð. Sum staðbundin inngrip eru ekki í boði hér og við höfum þurft að senda sjúklinga út, en það urðu breytingar þegar jáeindaskanninn var tekinn í notkun, því áður þurftum við að senda fólk út í jáeindaskanna. Í haust byrjaði hjá okkur staðbundin geislameðferð á heilameinvörp, kölluð steríótaktísk geislameðferð, en fyrir þann tíma þurftum við að senda þá sjúklinga erlendis til meðferðar. Við sem vinnum hér á landi með brjóstakrabbamein horfum mikið til Svíþjóðar og erum undir sænskum áhrifum enda eru mörg okkar menntuð þar og þekkjum það umhverfi vel. Það er samt ekki þannig að allt sé best í Svíþjóð, en hvað brjóstaskimun og almennt ferli brjóstakrabbameinssjúklings varðar þá getum við lært ýmislegt þaðan. Til dæmis hvernig fylgst er með þátttöku í brjóstaskimun og brugðist er við ef hún lækkar og eins ef ferlar sjúklings virka ekki sem skyldi með tilliti til aðgengis og biðtíma,“ segir Ólöf.
„Hvað meðferðir varðar þá erum við að gefa mjög sambærilegar meðferðir og tíðkast erlendis, hvort sem horft er til krabbameinslyfja eða annarra meðferða. Við erum ekki með klínískar lyfjarannsóknir þegar kemur að brjóstakrabbameinum og ég myndi vilja að slíkar rannsóknir væru í gangi hvað framtíðarsýn varðar enda rannsóknir hluti af þróun og framförum í krabbameinslækningum. Til þess að íslenskir sjúklingar hafi aðgang að lyfjum sem eru ennþá á rannsóknarstigi þurfum við að vera þátttakendur í alþjóðlegum klínískum rannsóknum og það hefur af ýmsum ástæðum verið erfitt í framkvæmd. Það er stundum áskorun þegar ný lyf koma á markað að Ísland er oft of lítið til að lyf sé skráð á Íslandi og þannig ekki efst á forgangslista þeirra landa sem fá lyfið. Við reynum að gera það sem við getum til að fá lyf, en stundum gengur það ekki. Mér vitandi hefur þó samstarfið við Norðurlöndin aukist hvað þetta varðar,“ segir Ólöf.
Hún bætir við að með stofnun Brjóstamiðstöðvarinnar sem er staðsett á Eiríksstöðum, Eiríksgötu 5 í Reykjavík, sé komið frábært tækifæri til að hafa alla þjónustu á einum stað og að allir sem að koma vinni saman í ferlinu. „Flækjustigið sem ég hef upplifað þegar kemur að brjóstaskimunum er að einn aðili sér um rannsóknina (3. hæð Brjóstamiðstöðvarinnar), samhæfingarstöð krabbameinsrannsókna boðar konur í skimun og síðan er það Embætti landlæknis sem á að fylgjast með ferlinu og bregðast við ef þarf. Það væri frábært ef þetta væri allt undir einum hatti. Það er orðið meira samtal í dag og ég veit ekki betur en allir sem að koma vilji gera ferlið betra, en það er flóknara þegar margir aðilar koma að því.“