„Mikilvægt að muna að hvert ferðalag er einstakt“

Höfundur

Ragna Gestsdóttir

Ljósmyndari

Ragnar Th.

Ólöf Kristjana Bjarnadóttir er sérfræðilæknir í krabbameinslækningum á Landspítala og jafnframt tengiliður spítalans við Ljósið varðandi Sidekick-brjóstakrabbameinsverkefnið og smáforritið. Ólöf segir íslenskar konur þurfa að mæta betur í brjóstaskimanir og unnið sé að því að einfalda ferlið. Almennt sé Ísland að standa sig vel þegar kemur að krabbameinsmeðferðum þó oft megi gera betur, sérstaklega þegar kemur að rannsóknarvinnu og þátttöku í klínískum rannsóknum.

„Við þurfum að gera betur í brjóstaskimunum, síðustu tíu ár hefur þátttakan verið of léleg, við erum með rúmlega 50% mætingu,“ segir Ólöf og bendir á að í mars síðastliðnum hafi embætti landlæknis gefið út samantekt fyrir árið 2021. „Sem sýnir það að mæting í brjóstaskimun er undir 60% sem er alltof lág og léleg þátttaka. Það þarf að hafa meiri áhrif og hvetja konur til að mæta betur. Maður vill að þátttakan sé meiri.“ 

Ólöf segir að það séu örugglega nokkrir þættir sem hafi áhrif á að þátttakan er ekki eins góð og æskilegt er. „Brjóstaskimunin kostar í dag 5.072 kr. Það eru konur sem þurfa að forgangsraða peningum og velja að nota þá ekki í skimun. Jafnframt ætti að vera hægt með einföldum hætti að panta tíma á netinu en til að fá tíma í dag þarf kona að hringja á milli kl. 8.30-12.00 eða senda tölvupóst. Þetta er svolítið vesen og ég myndi alveg vilja hafa fyrirkomulagið þægilegra. Konur sem eru kallaðar í skimun eru á aldrinum 40-74 ára og meirihlutinn eru bara uppteknar konur sem eru í vinnu og þessi tími á morgnana ekki besti tíminn til að bíða í símanum. Í Svíþjóð fá konur sent bréf heim með fyrirfram ákveðnum tíma og ef þær geta ekki mætt þá eru þær beðnar að fara á netið og breyta tímanum. Auk þess er brjóstaskimun gjaldfrjáls í Svíþjóð.“ 

 

Hópleit brjóstaskimana er almenn fyrir konur á aldrinum 40-74 ára og er óháð fjölskyldusögu um krabbamein og annað. „Ég held að 40 ár sé fínn aldur til að hópleitin skili sínu, það átti að hækka aldurinn upp í 50 ára en því var harðlega mótmælt þegar skimunarráð mælti með að aldur yrði hækkaður. Ef um fjölskyldusögu eða áhættugen er að ræða, eins og BRCA1 og BRCA2 sem eru algengust, gilda aðrar reglur og lögmál og þá er um svokallað hááhættueftirlit að ræða. Aldur kvenna í slíku eftirliti er að lækka einfaldlega út af tilfellum sem eru að greinast fyrr. Skurðlæknar sjá fyrst og fremst um hááhættueftirlit og farið er eftir klínískum leiðbeiningum. Það er mismunandi til hvaða samtaka horft er hvað leiðbeiningar varðar, það er hvort það er til Svíþjóðar, til evrópsku krabbameinslæknasamtakanna eða til Bandaríkjanna,“ segir Ólöf. 

 

„Hópleit fer fram hjá einkennalausum konum. Ef konur finna hnút í brjóstinu þá er ekki nóg að fara í hópleit, í henni er eingöngu tekin röntgenmynd sem segir ekki allt. Finni kona hnút þá þarf hún að fara í sérskoðun á brjósti. Þá er gerð brjóstamynd eins og gert er í hópleit, ómskoðun og klínísk skoðun auk sýnatöku ef eitthvað sést á myndrannsóknum. Því miður hefur það komið fyrir að konur hafi fundið hnút í brjósti og í góðri trú farið í hópleit, eða verið vísað í hópleit, sem er ekki nægileg uppvinnsla við einkenni frá brjóstum, og þannig hafa konur ekki ratað strax í rétt ferli. Þannig að það er mikilvægt að gera greinarmun á ferlinu eftir því hvort kona er einkennalaus eða finnur hnút í brjóstinu. Við erum að vinna í að gera ferlið betra og ég vona að það sé á réttri leið,“ segir Ólöf.   

 

„Hópleitin er ekki 100% og því hefur ekki verið haldið fram. Einfaldasta rannsóknin sem hægt er að gera til að meta brjóstið er með hefðbundinni röntgenmynd. Hún er góð sem greiningartæki í hópleit, ef röntgenlæknir síðan sér eitthvað sem vekur grun þá er kona kölluð inn aftur í frekari skoðun. Hjá yngri konum er brjóstvefurinn þéttari og ef ung kona finnur einhvern hnút þá sést hann stundum ekki á röntgenmynd og þá þarf að gera aðrar rannsóknir eins og ómskoðun eða segulómskoðun af brjóstinu. Eftir því sem konur verða eldri þá sýna röntgenmyndir oft betur hnúta í brjóstum.“  

 

En hvernig er Ísland að standa sig almennt þegar kemur að krabbameinsmeðferðum samanborið við önnur lönd? „Almennt erum við að standa okkur vel hvað meðferð varðar, en það hefur stundum áhrif hvað við erum lítil þjóð. Sum staðbundin inngrip eru ekki í boði hér og við höfum þurft að senda sjúklinga út, en það urðu breytingar þegar jáeindaskanninn var tekinn í notkun, því áður þurftum við að senda fólk út í jáeindaskanna. Í haust byrjaði hjá okkur staðbundin geislameðferð á heilameinvörp, kölluð steríótaktísk geislameðferð, en fyrir þann tíma þurftum við að senda þá sjúklinga erlendis til meðferðar. Við sem vinnum hér á landi með brjóstakrabbamein horfum mikið til Svíþjóðar og erum undir sænskum áhrifum enda eru mörg okkar menntuð þar og þekkjum það umhverfi vel. Það er samt ekki þannig að allt sé best í Svíþjóð, en hvað brjóstaskimun og almennt ferli brjóstakrabbameinssjúklings varðar þá getum við lært ýmislegt þaðan. Til dæmis hvernig fylgst er með þátttöku í brjóstaskimun og brugðist er við ef hún lækkar og eins ef ferlar sjúklings virka ekki sem skyldi með tilliti til aðgengis og biðtíma,“ segir Ólöf.  

 

„Hvað meðferðir varðar þá erum við að gefa mjög sambærilegar meðferðir og tíðkast erlendis, hvort sem horft er til krabbameinslyfja eða annarra meðferða. Við erum ekki með klínískar lyfjarannsóknir þegar kemur að brjóstakrabbameinum og ég myndi vilja að slíkar rannsóknir væru í gangi hvað framtíðarsýn varðar enda rannsóknir hluti af þróun og framförum í krabbameinslækningum. Til þess að íslenskir sjúklingar hafi aðgang að lyfjum sem eru ennþá á rannsóknarstigi þurfum við að vera þátttakendur í alþjóðlegum klínískum rannsóknum og það hefur af ýmsum ástæðum verið erfitt í framkvæmd. Það er stundum áskorun þegar ný lyf koma á markað að Ísland er oft of lítið til að lyf sé skráð á Íslandi og þannig ekki efst á forgangslista þeirra landa sem fá lyfið. Við reynum að gera það sem við getum til að fá lyf, en stundum gengur það ekki. Mér vitandi hefur þó samstarfið við Norðurlöndin aukist hvað þetta varðar,“ segir Ólöf.  

 

Hún bætir við að með stofnun Brjóstamiðstöðvarinnar sem er staðsett á Eiríksstöðum, Eiríksgötu 5 í Reykjavík, sé komið frábært tækifæri til að hafa alla þjónustu á einum stað og að allir sem að koma vinni saman í ferlinu. „Flækjustigið sem ég hef upplifað þegar kemur að brjóstaskimunum er að einn aðili sér um rannsóknina (3. hæð Brjóstamiðstöðvarinnar), samhæfingarstöð krabbameinsrannsókna boðar konur í skimun og síðan er það Embætti landlæknis sem á að fylgjast með ferlinu og bregðast við ef þarf. Það væri frábært ef þetta væri allt undir einum hatti. Það er orðið meira samtal í dag og ég veit ekki betur en allir sem að koma vilji gera ferlið betra, en það er flóknara þegar margir aðilar koma að því.“ 

 

„Hópleit fer fram hjá einkennalausum konum. Ef konur finna hnút í brjóstinu þá er ekki nóg að fara í hópleit, í henni er eingöngu tekin röntgenmynd sem segir ekki allt. Finni kona hnút þá þarf hún að fara í sérskoðun á brjósti. Þá er gerð brjóstamynd eins og gert er í hópleit, ómskoðun og klínísk skoðun auk sýnatöku ef eitthvað sést á myndrannsóknum.“

Vildi verða læknir til að fá fullt af pósti  

 

Ólöf er fædd á Sauðárkróki þar sem faðir hennar starfaði sem læknir á heilsugæslunni sem hluta af kandídatsárinu. Þaðan lá leiðin í Hafnarfjörð, en eftir árs búsetu í Hafnarfirði flutti fjölskyldan til Västerås í Svíþjóð þar sem faðir hennar fór í sérnám. „Þar kynntist ég Svíþjóð fyrst, eftir fjögur ár fluttum við aftur í Hafnarfjörð þar sem ég er alin upp og gekk í Öldutúnsskóla. Ég var í fimleikum, lærði á þverflautu, söng í kór Öldutúnsskóla og spilaði fótbolta með Haukum fram að tvítugu. Eftir stúdentspróf úr MR vissi ég ekki hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór þannig að ég fór sem au-pair til Þýskalands í eitt ár, fyrst til Stuttgart og síðan til Aachen. Loks komst ég að því að ég vildi fara í læknisfræði,“ segir Ólöf og rifjar upp að þegar hún var barn hafi þó hvarflað að henni að vilja verða læknir. 

 

„Þegar ég var 6-7 ára ákvað ég að verða læknir eins og pabbi af því hann fékk svo mikinn póst og ég fékk aldrei póst. Seinna datt ég á hjóli, fékk skurð á hné og fannst mér það hræðilegt og hætti við að vilja fara í læknisfræði. Í MR var ég ekki farin að leiða hugann að læknisfræðinni og útskrifaðist af eðlisfræðideild II. Síðan 1998, á miðju au-pair-árinu fór ég að hugsa þetta. Afi minn, sem einnig var læknir, lést úr krabbameini á öðrum degi jóla það ár og ég skráði mig í læknisfræði haustið á eftir. Þá var numerus clausus sem var þannig að maður sat í tímum haustönnina, tók jólapróf og mig minnir að 40 efstu á prófunum hafi komist áfram. Ég komst ekki inn í fyrstu tilraun en komst inn árið eftir. Ég tók læknisfræðina hér heima, að undanskyldu þriðja árinu sem ég tók sem skiptinemi í Lundi í Svíþjóð. Fyrstu kynni mín af krabbameinslækningum voru á fjórða ári námsins, þegar ég var í sex vikna verknámi á legudeild krabbameina 11E. Þetta ár var verið að prófa að 4. árs læknanemar væru á sama stað allar sínar sex vikur í verknámi, í stað þess að flakka vikulega á milli deilda. Flestum bekkjarsystkinum mínum fannst ég hafa dregið stutta stráið varðandi deild og hálfpartinn vorkenndu mér þar sem þetta væri svo erfitt, en það var eitthvað þarna sem heillaði og mér þótti spennandi. Sumarið eftir vann ég á legudeildinni sem aðstoðarlæknir og svo fann ég aldrei neitt annað sem heillaði mig meira. Ég velti meðal annars fyrir mér barnalækningum og heimilislækningum, en krabbameinslækningarnar toguðu alltaf í mig. Ég veit ekki hvort andlát afa hafi átt þátt í því, en hann lést eins og áður segir úr krabbameini og gat verið heima með sérhæfðri hjúkrun þar til yfir lauk. Andlát hans er ein af þeim minningum sem ég man vel eftir, en ég held þó að andlát hans hafi nú ekki verið örlagavaldur.“  

 

Útskrift og sonur með viku millibili

 

Ólöf lauk læknanámi árið 2006 og tók kandídatsárið hér heima. „Ég prófaði að vinna á barnadeild og heilsugæslu og byrjaði síðan í lyflækningaprógramminu hér heima, en í Svíþjóð er það þannig að læknar sem ætla í krabbameinslækningar fara beint í þær. Ég hafði mestan áhuga á krabbameinslækningum og fór því að skoða þann möguleika. Í mínu tilviki atvikaðist það þannig að sérfræðingur sem ég var að vinna með, og vinn með í dag, hafði samband við sína fyrrum kollega á Háskólasjúkrahúsinu í Lundi og athugaði möguleika á sérnámi fyrir mig þar. Ég fór í viðtal þar og líka í Stokkhólmi og Gautaborg, en eftir mín fyrri kynni af Lundi langaði mig mest þangað. Við fluttum út í mars 2010 og ég byrjaði í tímabundinni ráðningu sem breyttist síðan í fimm ára sérnám. Eftir 2-3 ára nám á háskólasjúkrahúsi, sem er mjög virkt í rannsóknum og vísindastarfi fóru brjóstakrabbameinin að heilla mig en ég vann mikið á þeirri legudeild í sérnáminu. Þar kynntist ég Signe Borgquist, krabbameinslækni og núverandi prófessor í Árósum í Danmörku, sem plataði mig til að fara í rannsóknir. Einn daginn spurði ég hana hvað ég ætti að gera ef ég hefði áhuga á rannsóknarvinnu og hún svaraði að við skyldum hittast daginn eftir,“ segir Ólöf.  

 

Daginn eftir mætti Signe á fund þeirra með möppu yfir rannsóknarverkefni sem hún hafði unnið að og upplýsingar um hvernig Ólöf yrði doktorsnemi við Lundarháskóla. „Þá var hún búin að ákveða að ég kæmi í doktorsverkefni hjá henni. Hún var með í gangi fasa 2 brjóstakrabbameinsrannsókn, The MAST study (MAmmary cancer and STatins) þar sem hún var að skoða áhrif statína á krabbameinsfrumur, en statín er blóðfitulækkandi lyf sem eru mikið notuð meðal annars af sjúklingum með háar blóðfitur eða hjarta- og æðasjúkdóma. Þetta var svokölluð tækifærisglugga rannsókn (e. Window-of-opportunity study) þar sem tími frá greiningu brjóstakrabbameins að aðgerð, venjulega biðtími fyrir sjúklinginn, er nýttur undir einhvers konar meðferð. Konurnar í rannsókninni voru látnar taka  statín í  tvær vikur en áður en statín meðferðin hófst var tekið viðbótar vefjasýni frá brjóstakrabbameininu sem síðan var borið saman við skurðsýnið frá sjálfri skurðaðgerðinni. Þannig voru skoðaðar breytingar á ýmsum eiginleikum brjóstakrabbameinsfrumnanna eftir tveggja vikna statín meðferð,“ segir Ólöf sem byrjaði rannsóknarvinnu samhliða sérnáminu. „Seinni hluta sérnámsins  fékk ég rannsóknarstyrk, sem kallast ST ALF, sem þýðir að ég fékk laun og tíma til að sinna rannsóknarvinnunni, sem munaði mikið um svo hægt væri að sinna rannsóknarvinnu og til að geta klárað þetta. Eldri sonur minn fæddist í júlí 2014 og ég fékk sérfræðingaleyfi í krabbameinslækningum viku áður en hann fæddist. Ég varði síðan doktorsritgerðina í desember 2017. Síðan vann ég áfram úti í Lundi sem sérfræðingur og sinnti rannsóknum samhliða.“ 

 

„Klínískt starf í krabbameinslækningum tekur oft á tíðum mikið á. Flestir sem heyra að ég sé krabbameinslæknir tengja starfið við erfiðleika og dauða, en mér finnst starf mitt ótrúlega gefandi. Meðferðir og lifun sjúklinga með krabbamein verður sífellt betri. Ef við horfum til dæmis á brjóstakrabbamein eru um 90% kvenna á lífi eftir fimm ár. Því miður koma tilfelli þar sem sjúklingar svara ekki meðferð og lifunin er of stutt, en aðrir lifa mörg ár jafnvel með sjúkdóm á dreifðu stigi.“

Læknastarfið snýst mest um að vera á gólfinu  

 

Eftir tíu ára búsetu í Svíþjóð kom að því að Ólöf og maður hennar fóru að íhuga að flytja heim aftur. „Korter í COVID, í febrúar 2020 fórum við að velta fyrir okkur hvort við vildum flytja heim og svo þegar við vorum búin að ákveða okkur var kominn heimsfaraldur og við fluttum heim í júlí sama ár. Árin í Svíþjóð voru fleiri en við ætluðum okkur í upphafi. Maðurinn minn var búinn að vinna í Danmörku allan tímann og breytingar fyrirhugaðar þar og við bæði tilbúin að flytja heim, enda var ég búin að gera allt sem ég ætlaði í Svíþjóð og meira til,“ segir Ólöf. Hún segir einnig að eftir langa búsetu í Svíþjóð hafi hún verið farin að sjá meira galla í kerfinu sem fór minna fyrir í byrjun, en vissulega hafi verið kostir og gallar erlendis, líkt og hér.  

 

„Svo var þetta klassíska líka ástæðan fyrir flutningi heim, ræturnar og fjölskyldan. Í mínu tilviki var það ekki beint vinnan eða vinnuumhverfið sem togaði mig heim. Ég vinn meira hér heima og sakna stundum fríanna minna sem ég átti í Svíþjóð, þar sem vinnufyrirkomulagið er annars konar. Auk hefðbundins sumarfrís bættist við vaktafrí og yfirvinnufrí þar sem vaktir og yfirvinna eru að mestu greiddar í fríum þar sem ég var. Slíkt nýttist vel þegar voru til dæmis skipulagsdagar í leikskóla og annað tilfallandi,“ segir Ólöf.  

 

„Ég finn samt þegar ég er komin heim að maður vill að hlutir séu í lagi og að við getum haft meiri áhrif af því við erum svo fá. Hér heima hittir sjúklingur oftast einn krabbameinslækni sem er ábyrgur fyrir meðferðinni frá greiningu og þar til meðferð lýkur. Það er kostur að sjúklingur fái góða samfellu í sinni meðferð og eftirliti en gerir kerfið viðkvæmara þar sem það byggist á einum lækni í stað kerfis sem getur brugðist betur við óvæntum forföllum heilbrigðisstarfsfólks. Ég upplifði oft að úti byggðist starfsemin meira út frá kerfinu þannig að fleiri tóku við ef óvæntar breytingar urðu. Þannig var sjúklingur með tiltekinn sérfræðing ábyrgan fyrir sinni meðferð en gat hitt marga krabbameinslækna á ferð sinni. Það fyrirkomulag er ekki gallalaust, og eitthvað var um að óánægju gætti meðal sjúklinga sem reglulega hitti nýjan lækni, en á sama tíma gaf það aukinn sveigjanleika í skipulagi og starfsemi krabbameinsdeildarinnar,“ segir Ólöf.  

 

Ólöf nefnir einnig að hér heima snúist starfið fyrst og fremst um að vera læknir, að vera á gólfinu, en minna sé um rannsóknarvinnu eða að hún sé í forgangi. „Ég er í 100% klínísku starfi en er alltaf að skoða möguleika á rannsóknum. Það vantar stuðninginn innan frá í kerfinu til að rannsóknir séu hluti vinnunnar, sem mér finnst þær eiga að vera, en það er ekki hluti vinnutímans hjá mér skilgreindur í rannsóknir. Ég var svo bjartsýn þegar ég flutti til Íslands hvað þetta varðar, en svo þarf að finna tíma fyrir rannsóknir og svo þarf að forgangsraða þeim. Vonandi verður breyting á þessu. Mér finnst mikilvægt í fagi eins og krabbameinslækningum að sinna rannsóknarvinnu samhliða, bæði upp á mikilvægi þess hvernig við erum að gera hlutina og hvernig við erum að standa okkur samanborið við önnur lönd,“ segir Ólöf. 

 

„Klínískt starf í krabbameinslækningum tekur oft á tíðum mikið á. Flestir sem heyra að ég sé krabbameinslæknir tengja starfið við erfiðleika og dauða, en mér finnst starf mitt ótrúlega gefandi. Meðferðir og lifun sjúklinga með krabbamein verður sífellt betri. Ef við horfum til dæmis á brjóstakrabbamein eru um 90% kvenna á lífi eftir fimm ár. Því miður koma tilfelli þar sem sjúklingar svara ekki meðferð og lifunin er of stutt, en aðrir lifa mörg ár jafnvel með sjúkdóm á dreifðu stigi. Krabbameinslækningar eru ótrúlega spennandi fag og ný lyf og meðferðarmöguleikar eru sífellt að bætast við þær meðferðir sem fyrir eru. Það eru þó vísbendingar um að á Íslandi séum við ekki að bæta okkur jafn mikið í lifun brjóstakrabbameinsgreindra og hin Norðurlöndin. Það eru margir þættir sem geta haft áhrif á það sem þarf að skoða, en léleg þátttaka í brjóstaskimun getur verið hluti af skýringunni. Mín tilfinning er að brjóstakrabbameinin hér á Íslandi séu jafnvel aðeins stærri við greiningu borið saman við Svíþjóð en það þarf að skoða betur. Það er ekki þannig að lifunin sé að versna hér, heldur meira að við sjáum ekki sömu bætingu í lifun hérlendis eins og sést í nágrannalöndunum,“ segir Ólöf. 

 

Hvernig erum við að standa okkur miðað við aðrar þjóðir? „Á spítalanum finnst mér við þurfa að gera rannsóknarvinnu hærra undir höfði, meðal annars með bættri umgjörð og skilgreindum tíma til rannsóknar. Við getum gert betur í klínískum rannsóknum. Maður hefur þurft að fórna rannsóknarstarfinu svolítið fyrir klínísku vinnuna, af því rannsóknir eru ekki settar framar í forgangsröðina. Í Lundi fannst mér hlutfall sérnámslækna og sérfræðinga sem fóru í veikindaleyfi vegna álags eða sem brunnu yfir í starfi vera hærra hjá þeim sem eingöngu voru á gólfinu borið saman við þá sem einnig sinntu rannsóknarvinnu samhliða. Á gólfinu er erfiðasta og oft mikilvægasta vinnan, en það er líka mikilvægt að hlúa að rannsóknarvinnunni samhliða. Það er áskorun á krabbameinsdeildinni hér hvað við krabbameinslæknar erum fáir. Betri og fleiri meðferðarmöguleikar gera það að verkum að sjúklingar okkar lifa lengur sem er frábært, en við þurfum reglulega að endurskipuleggja ýmsa þætti í starfseminni og ég vona líka að fjölgi í starfshópnum okkar. Miðað við hvað við erum fáir krabbameinslæknar erum við að gera góða hluti. Það er töluverður fjöldi íslenskra lækna í sérnámi í krabbameinslækningum, bæði í Lundi og Stokkhólmi og víðar erlendis, sem maður vonar að skili sér hingað heim. Á síðustu þremur árum hafa fimm krabbameinslæknar flutt heim til Íslands, einn í geislalækningum og fjórir í lyflækningum. Þannig að það hefur orðið aðeins endurnýjun en að sama skapi hafa læknar hætt eða farið á eftirlaun. Miðað við fjölda sjúklinga þá er þörf á fleiri læknum,“ segir Ólöf. 

 

Hún ítrekar mikilvægi þess að hafa rannsóknir inni í klínísku vinnunni til að geta unnið annað samhliða starfinu sem gagnast starfsemi og þróun til framtíðar og gefi læknum andrými til að hlúa að sjálfum sér, sjúklingunum og starfseminni. 

 

 

„Ég hef frá upphafi nefnt Ljósið sem möguleika hvað varðar endurhæfingu við mína skjólstæðinga. Áður fyrr var krabbameinssjúklingum ráðlagt að gera sem minnst og helst liggja fyrir og hvíla sig, en það hefur breyst. Það er mikilvægt upp á virkni að gera að hreyfa sig og ég mæli mikið með göngutúrum, það þurfa ekki að vera neinar öfgar. Hvort sem það er göngutúrar, líkamsrækt eða annað sem fólk tengir við og vill gera og hlustar á líkamann.“

Tengiliður Landspítala við Sidekick-verkefni Ljóssins  

 

Ólöf er tengiliður Landspítalans við Ljósið þegar kemur að Sidekick brjóstakrabbameinsverkefninu. „Þegar ég byrjaði á Landspítalanum í september 2020 fór ég og heimsótti Ljósið og hitti Ernu Magnúsdóttur forstöðukonu sem sýndi mér húsnæðið. Við á Brjóstamiðstöðinni fórum einnig í heimsókn í Ljósið í vor. Almennt er ég hlynnt líkamlegri hreyfingu og finn að mér líður betur þegar ég hreyfi mig þannig að ég hef hvatt mína sjúklinga til að hreyfa sig, hvort sem þeir fara í Ljósið eða ekki. Ljósið er hins vegar oft einfaldasta leiðin og aðgengið gott,“  segir Ólöf. 

 

„Sidekick-verkefnið hófst í Ljósinu nú í sumar og við erum að ganga frá ýmsum þáttum til að geta byrjað það hér á Landspítalanum. Ég kannaðist við stofnendur Sidekick úr læknisfræðinni og fannst þetta spennandi tækifæri til að bæta líðan skjólstæðinga og finna þann hóp sjúklinga sem verkefnið myndi gagnast og hjálpa. Mér finnst mikilvægt að skoða aðra möguleika sem geta veitt stuðning og það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu verkefni,“ segir Ólöf. 

 

Konur sem hafa greinst með brjóstakrabbamein síðastliðið ár geta verið með í rannsókninni, sama á hvaða stigi krabbameinið er. Í brjóstakrabbameinsrannsókninni er skoðað hvort stafræn heilbrigðisþjónusta, smáforrit (app) sem þróað er af Sidekick Health, geti gagnast konum sem hafa greinst með brjóstakrabbamein, í þeirri von að það bæti lífsgæði. Smáforritið er með ýmsan fróðleik og ráðleggingar sem snúa að góðri heilsu, þar með talið næringu, hreyfingu og hugrækt. Með þessari samanburðarrannsókn er verið að skoða ávinning af notkun smáforritsins borið saman við hóp sem ekki notar hann. „Þetta er slembiröðuð rannsókn sem er metin með skölum um líðan, einkenni og fleira. Það er mikið áfall að fá greiningu um brjóstakrabbamein og umfang meðferðarinnar hefur síðan oft áhrif á líðan og endurhæfinguna. Hvaða meðferðir verða fyrir valinu í hverju tilfelli fyrir sig byggist á stigi krabbameinsins við greiningu ásamt öðrum eiginleikum brjóstakrabbameinsins sem og líkamlegri færni sjúklings. Þegar brjóstakrabbameinið er á læknanlegu stigi geta meðferðarferlarnir þannig verið allt frá því að vera skurðaðgerð og svo er ferlið búið í að fá stærri meðferðarpakka með skurðaðgerð, krabbameinslyfjameðferð, geislameðferð og andhormónatöflumeðferð sem getur tekið frá hálfu upp í eitt ár. Því flóknara sem meðferðarferlið er, því lengri tíma tekur oft endurhæfingin. Það hefur sýnt sig að hreyfing er mjög mikilvæg og hún hjálpar mikið, bæði upp á velllíðan og batahorfur,“ segir Ólöf og bætir við að hún hafi ekki persónulega reynslu af Ljósinu, en hafi fylgst með starfseminni bæði í fjölmiðlum og tengt Reykjavíkurmaraþoninu. 

 

„Ég hef frá upphafi nefnt Ljósið sem möguleika hvað varðar endurhæfingu við mína skjólstæðinga. Áður fyrr var krabbameinssjúklingum ráðlagt að gera sem minnst og helst liggja fyrir og hvíla sig, en það hefur breyst. Það er mikilvægt upp á virkni að gera að hreyfa sig og ég mæli mikið með göngutúrum, það þurfa ekki að vera neinar öfgar. Hvort sem það er göngutúrar, líkamsrækt eða annað sem fólk tengir við og vill gera og hlustar á líkamann,“ segir Ólöf.  

 

„Mín reynsla er að íslenskar konur ræða mikið sín á milli og eru oft að miðla reynslu sinni í ýmsum hópum meðal annars á samfélagsmiðlum. Það er eitthvað sem ég kynntist ekki úti í Svíþjóð. Konur eru þannig oft að bera saman bækur sínar, það er samt mikilvægt að muna að hvert ferðalag er einstakt. Meðferð við brjóstakrabbameini stjórnast af mörgum þáttum sem snúa að eiginleikum krabbameinsins sem og sjúklingnum sjálfum. Engar tvær eru eins og það er því oft munur á hvernig ólíkar konur þola og upplifa meðferðir, hvort sem það eru krabbameinslyf eða önnur meðferð. Það eru því ýmsar ástæður fyrir því að upplifun og reynsla kvenna sem greinast og fá meðferð vegna krabbameins er ólík og það má ekki gleymast í jafningjastuðningnum sem er oft ómetanlegur.“