„Lífið getur verið mikil gjöf ef maður er tilbúin að taka á móti því“

Höfundur

Ragna Gestsdóttir

Ljósmyndari

Marinó Flóvent

Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir greindist með krabbamein í lok árs 2020. Jenný segir að hún hafi fram að því flotið með lífinu en í meðferðinni ákvað hún að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og segir gömlu Jennýju sem stóð ekki með sjálfri sér horfna í dag. Styrkleikar Jennýjar og áhuginn á líkamsrækt og öllu sem lífið býður upp á jukust á sama tíma og meinið minnkaði.

„Ég greindist með brjóstakrabbamein í lok árs 2020, fór í aðgerð í nóvember þar sem eitt æxli var tekið, síðan voru vísbendingar um meira og í janúar 2021 voru tekin tvö æxli til viðbótar og ég greindist með krabbamein sem heitir Her2. Það þýddi bara eitt: allsherjar meðferð,“ segir Jenný sem byrjaði í lyfjameðferð í febrúar, vikulega í 12 vikur fram í maí og síðan tók við lyftæknilyf í eitt ár auk geislameðferðar. Jenný var 55 ára þegar hún greindist, en hún starfar sem þróunarfulltrúi leikskóla hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem hún er með yfirumsjón með leikskóla- og dagforeldramálum. „Ég er búin að vera í því starfi frá 2014 og gengið óskaplega vel bæði í starfinu og lífinu. Ég á tvö börn sem eru 23 og 26 ára í dag, æðislega krakka, og við erum búin að vera þrjú mjög lengi.“

 

Krabbameinið fannst við reglubundið eftirlit og var algerlega tilviljanakennt að sögn Jennýjar, engin fjölskyldusaga er um brjóstakrabbamein. „Krabbameinið var bara eitthvað sem gat komið fyrir hvern sem er og virtist engin fylgni eða tengsl við neitt. Þetta var ofboðslegt sjokk að greinast. Fyrst hugsaði ég ekki um mig, heldur um vinnuna, hvað verður um þessa vinnu, sjálfið var svolítið þar og að ég væri vinnan mín. Svo komst ég aldeilis að öðru. Ég glímdi við mikið „imposter syndrome“ þegar ég fór í veikindaleyfi og hélt að það myndi komast upp um mig, hvað ég væri lélegur starfsmaður og ég yrði bara látin fara,“ segir Jenný og segist hafa fengið hjálp bæði í Ljósinu og annars staðar við að losa sig við þessar neikvæðu hugsanir. En af hverju kom þessi hugsun upp? „Ég hafði aðra mynd af mér en samstarfsfélagar mínir og aðrir í kringum mig, mér fannst ég ekki jafnmegnun og öðrum finnst ég vera. Meðan ég var í veikindaleyfi þá fékk ég fjölmörg skilaboð frá vinnufélögum mínum um að mín væri saknað og það væri margt sem þau kynnu ekki en ég kunni. Leiksskólastjórarnir sem ég er mest í samskiptum við sendu mér falleg skilaboð og ég var orðin mjög örugg. En ég var að glíma mikið við þessar hugsanir og fór í fórnarlambsstellingar í byrjun um af hverju ég hefði fengið krabbamein, af hverju þetta hefði komið fyrir mig.“

 

Eftir aðgerðirnar tvær ákvað Jenný að taka verkefnið föstum tökum og byrjaði að mæta í Ljósið, sem hún segist alltaf hafa vitað af. „Það komst ekki annað að en ég ætlaði í Ljósið, ég vissi samt ekki að það væri svona mikið í boði hérna. Síðan var COVID og það var svolítið erfitt að mæta hingað með grímu. Strax eftir aðgerðirnar mætti ég og fór í leikfimi og það æxlaðist síðan þannig að ég nýtti mér bara hreyfinguna, ég fór aldrei í neitt handverk. Ég ákvað að ég ætlaði ekki að liggja heima hjá mér þetta ár sem meðferðin átti að taka, kona sem er vön að vera á fullu alla daga og ég ætlaði að nýta mér þetta úrræði sem Ljósið er,“ segir Jenný. „Ég var svo einbeitt að ná heilsunni aftur, eina sem ég þráði var að fá heilsuna aftur, mér var sama um allt annað. Ég mætti í líkamsræktarsalinn eins oft og mátti í COVID. Ég man þegar ég var í lyfjameðferðinni þá kom ég hérna, settist á bekkinn, sat þar og fór heim. Ég gat ekki gert neitt, ég var alveg buguð. Svo fór ég að geta gert aðeins meira og meira, og ég mætti alltaf. Stundum var nóg að setjast inn í bíl, keyra í Ljósið og svo aftur heim. Ég var í lyfjameðferð á miðvikudögum, fimmtudaga og föstudaga var ég hress, síðan var ég ógeðslega lasin yfir helgina og mánudag og svo hófst næsta lyfjameðferð. Svona gekk þetta í þrjá mánuði. Eftir lyfjameðferðina þá fór ég í geislameðferð og ég var mjög slöpp, en ég mætti samt alltaf í Ljósið. Í júlí voru fáir hérna og lítil starfsemi en alltaf mætti ég. Fljótlega fór ég svo að fara í tækin, ég fór líka í jóga sem mér fannst gott meðan ég var í þessari „intensive“ meðferð af því maður er svo aumur og á ekkert í þetta, getur ekki borðað, orðin hárlaus, bara rosa vanmáttug í þessum aðstæðum,“ segir Jenný sem útskrifaðist úr Ljósinu tveimur vikum áður en viðtalið er tekið. 

 

„Fyrst og síðast var það mín ákvörðun hvernig ég ætlaði að takast á við ferlið; ætla ég að vera í fórnarlambshlutverkinu eða ætla ég að hugsa: „þetta er verkefnið mitt, staðan mín, hvernig ætla ég að takast á við hana,“ segir Jenný sem ákvað að taka einn dag í einu. 

 

„Mér finnst eðlilegt að það komi eitthvað upp hjá fólki í meðferðinni, hjá mér kom mitt gamla líf upp samhliða því að greinast með krabbamein, það er oft talað um þennan blessaða bakpoka og það hjálpaði mér mjög mikið að vinna úr því sem hann geymdi. Ég ætlaði ekki að láta meðferðina buga mig. Ég sem manneskja hef mikla seiglu eftir það sem ég hef upplifað, það hefur alls konar gerst, og seigla er kannski ekki öllum gefin. Þessi hugsun að halda áfram og gefast ekki upp fór einhvern veginn aldrei frá mér sem ég er mjög þakklát fyrir.“

 

„Að gefast ekki upp og halda áfram, einn dagur í einu og lifa lífinu“

 

Jenný var í veikindaleyfi í eitt ár og mætti svo aftur til vinnu í janúar, fyrst í 50% vinnu í þrjá mánuði og síðan í 100% vinnu í apríl. „Margir spurðu mig þegar ég mætti aftur til vinnu hvort ég réði við það, en ég vildi vinna. Vinnan er átta tímar á dag og stór hluti af lífinu en hún tekur mig ekki. Hún gleypti mig áður mjög mikið, ég var að svara póstum á kvöldin og vinna um helgar, en ég geri það ekki lengur. Ég reyni ávallt hvern dag að hafa að markmiði: sofa 8 tíma, vinna 8 tíma og leika 8 tíma, það er alveg frábært ef mér tekst það. Og ég vinn vinnuna mína alveg jafnvel. Og ég er þakklát fyrir það. Það er ávísun á kulnun eða annað að vera alltaf í vinnunni. Ég þarf að halda mörgum boltum á lofti í vinnunni en ég ætla ekki að láta hana gleypa mig aftur. Ég er oft með mörg verkefni í gangi í einu í vinnunni en þá verð ég bara að ákveða hvernig ætla ég að búta þetta niður, hvernig ætla ég að skipta þessu niður á daginn. Ef ég missi heilsuna þá er enginn að fara að hjálpa mér,“ segir Jenný.

 

„Ég vil meina að það sem hefur hjálpað mér mest er hausinn á mér, að vilja ekki gefast upp og líka að ég hef byggt mig upp líkamlega, sem hjálpaði mér og ég var svo tilbúin að byrja að vinna aftur. Í dag er ég stundum þreytt en það er ekkert sem ég get ekki tekist á við. Ljósið hjálpaði mér mjög að byrja aftur. Það er ákveðinn kvíði að fara aftur út í lífið, það er svolítið verndandi að vera hér í Ljósinu en ég tókst vel á við það. Að gefast ekki upp og halda áfram, einn dagur í einu og lifa lífinu. Þetta hljómar frasakennt en þetta virkar.“ 

„…það er sama hvort ég er með krabbamein eða frísk, maður er alltaf sinn eigin skemmtanastjóri. Það er enginn annar sem er að fara að skemmta mér, ég þarf að gera það sjálf. Að treysta sjálfri sér og vilja vera með sjálfri sér er líka mikilvægt. Við mannfólkið erum félagsverur en við þurfum líka að kunna að vera ein.“

 

„Ég var svo mikið í að fresta hlutum, sem mig langaði til að gera eins og að ég hlyti að fara einhvern tíma til útlanda. Og einnig svona skorthugsun að finnast ég ekki eiga eitthvað skilið.  Hún er horfin þessi krumpaða og beyglaða Jenný sem átti ekki skilið hluti. Ég á allt skilið og allt það besta fyrir mig. Ég held svo með mér. Núna hugsa ég að ég á allt skilið og ég geri það sem mér dettur í hug.“

Starfsfólkið mætir öllum með miklum kærleika 

 

Jenný hrósar Ljósinu mjög og segir það engu líkt. „Ég var mest í samskiptum við fólkið í líkamsræktarsalnum og ég hef aldrei vitað meira safn af dásamlegu fólki. Starfsánægjufaktorinn er mikill og skilar sér svo til manns. Það eru allir starfsmenn svo markmiðasettir. Skjólstæðingar Ljóssins eru misjafnlega á sig komnir, sumir eru ekki tilbúnir í nein átök, en starfsfólkið mætir öllum af svo miklum kærleika. Og þau mættu mér þar sem ég var, ég sat buguð á bekknum og það var bara í lagi og ég fékk enga skömm yfir hvernig ég var, það er nóg að maður sé með skömm sjálfur. Svo var ég mætt á spinningshjólið og þá var bara pepp og stuðningur. Þetta er svo mikill kærleikur að mæta fólki þar sem það er statt, þegar það er einblínt á styrkleikana þína og þannig nærðu að blómstra,“ segir Jenný.

 

„Það er svo gaman að pæla í því að ég hef öðlast svo marga styrkleika í gegnum ferlið, ég er til dæmis orðin dálítin íþróttakona og stunda íþróttir á fullu. Síðustu áramót þá ákvað ég að mæta með syni mínum sem er afreksíþróttamaður í líkamsræktarstöðina Spörtu sem hann æfir í og ég æfi þar í dag. Á tímabili mætti ég tvisvar í viku í Spörtu og tvisvar í viku í líkamsræktina í Ljósinu. Í Spörtu er ég með dásamlegan þjálfara, hann Fannar, sem hefur verið fullkomið bæði á meðan ég var enn í Ljósinu og ekki síst núna þar sem líkamsræktin er alveg undir mér komin, eina sem ég þarf að gera er að mæta og gera það sem mér er sagt að gera. Ég hef alltaf synt mikið og gengið, en var aldrei í tækjum eða þolæfingum, en er á fullu í því í dag. Og mér finnst þetta svo gaman og finnst ég hafa öðlast nýtt líf sem mér finnst svo gott. Þetta er lífsstíll sem ég hef búið mér til. Og að finna muninn á því að hreyfa sig og hreyfa sig ekki, ég vil ekki fara aftur í hreyfingarleysið.“ 

 

Annað sem Jennýju finnst hún hafa grætt eftir meðferðina er meiri tími, tími til að lifa og njóta. „Áður en ég greindist þá fannst mér ég aldrei hafa neinn tíma, mér fannst hann svo lítill, ég var alltaf að flýta mér. Núna finnst mér ég hafa svo mikinn tíma. Ég fer í Hreyfingu fyrir vinnu, svo kem ég heim um hálffimm eftir vinnu og finnst ég bara hafa nægan tíma fyrir það sem mig langar að gera. Vera bara í núinu og vera ekki alltaf að hugsa hvaða verkefni þarf að leysa. Ég held það sé mikil streita fólgin í því að vera alltaf að hugsa: „Hvað þarf ég að gera næst?“  Auðvitað tek ég ábyrgð á því sem ég þarf að taka ábyrgð á, en þetta flæði það er svo mikil gjöf,“ segir Jenný. 

 

„Mér finnst ég ekki hafa haft mikið fyrir að breyta þessu. Ég hafði auðvitað aðlögun í eitt ár til að hugsa um mig og ég nýtti það ár mjög vel. Svo kemur þessi líkamlegi og andlegi styrkleiki með. Ég óska engum að fá krabbamein, en fyrir mig var það alls ekki það versta að greinast með krabbamein. Í dag þá hugsa ég svolítið um að þetta var gamla Jenný og núna er nýja Jenný.“ 

 

„…það er sama hvort ég er með krabbamein eða frísk, maður er alltaf sinn eigin skemmtanastjóri. Það er enginn annar sem er að fara að skemmta mér, ég þarf að gera það sjálf. Að treysta sjálfri sér og vilja vera með sjálfri sér er líka mikilvægt. Við mannfólkið erum félagsverur en við þurfum líka að kunna að vera ein.“

Lífið innihaldsríkara en áður

 

Jenný segist hafa lært það af krabbameinsferlinu að lífið er núna. „Ég var svo mikið í að fresta hlutum, sem mig langaði til að gera eins og að ég hlyti að fara einhvern tíma til útlanda. Og einnig svona skorthugsun að finnast ég ekki eiga eitthvað skilið.  Hún er horfin þessi krumpaða og beyglaða Jenný sem átti ekki skilið hluti. Ég á allt skilið og allt það besta fyrir mig. Ég held svo með mér. Núna hugsa ég að ég á allt skilið og ég geri það sem mér dettur í hug. Börnin mín eru fullorðin og sjá um sig sjálf, ég sé um mig sjálf og á nóg fyrir mig. Á þessu ári er ég búin að fara fjórum sinnum til útlanda og ég lifi geggjuðu lífi. Ég lifi innihaldsríkara lífi núna en áður, það er eitthvað sem kikkar inn við að greinast með krabbamein,“ segir Jenný.

 

„Áður þá fannst mér heilsan og lífið sjálfsagður hlutur, en þegar maður veikist sér maður að það er ekki þannig. Það er það sem ég gerði mér grein fyrir og það að ætla að sitja bara heima og láta lífið líða hjá er ekki í boði lengur. Mér fannst ég fá svo mikinn kjark, maður verður kjarkaður að lenda í svona ferli og stíga inn í þennan ótta. Ofboðslegur ótti læddist að mér; „greinist ég aftur, hvað gerist þá, hvað verður þá um mig,“ svona hörmungarhusanir sem ég fékk fyrst samhliða þessu impostersyndrómi. Í dag fæ ég ekki þessar hugsanir. Ég segi að það að fá krabbamein og fara í krabbameinsmeðferð var ekki það versta af því ég öðlaðist svo mikil lífsgæði í staðinn. Mér fannst ég alltaf hallærislegust í íþróttum og ég gæti ekki neitt, væri léleg, þannig talaði ég til sjálfrar mín í hausnum. Nú mæti ég bara og framkvæmi og er bara mjög öflug. Í krabbameinsferlinu fór ég mikið í göngutúra og var mikið að æfa mig í núvitund, labbaði niður að sjó og sat þar á steini og var að hugleiða. Ég setti mig bara í fyrsta sæti. Dóttir mín bjó hjá mér og hún og kærastinn hennar hugsuðu svo vel um mig þegar ég var sem veikust, ég held það sé flókið að vera einn þegar maður er í svona meðferð,“ segir Jenný sem segist þó hafa verið mikið ein í meðferðinni, henni hafi ekki liðið vel og hafi valið og viljað vera ein.

 

„Og þá lærir maður að vera sinn eigin skemmtanastjóri og það er sama hvort ég er með krabbamein eða frísk, maður er alltaf sinn eigin skemmtanastjóri. Það er enginn annar sem er að fara að skemmta mér, ég þarf að gera það sjálf. Að treysta sjálfri sér og vilja vera með sjálfri sér er líka mikilvægt. Við mannfólkið erum félagsverur en við þurfum líka að kunna að vera ein. Ég fór mikið ein í göngutúra og valdi það. Það skiptir máli að vera með sjálfstraust og geta treyst á sjálfan sig, lífið getur verið mikil gjöf ef maður er tilbúin að taka á móti því. Ég er mjög keik og glöð með lífið í dag.“

„…það er sama hvort ég er með krabbamein eða frísk, maður er alltaf sinn eigin skemmtanastjóri. Það er enginn annar sem er að fara að skemmta mér, ég þarf að gera það sjálf. Að treysta sjálfri sér og vilja vera með sjálfri sér er líka mikilvægt. Við mannfólkið erum félagsverur en við þurfum líka að kunna að vera ein.“