„Litir eru endalaust gleðiefni og uppspretta fyrir alls konar upplifanir og tilfinningar“

Höfundur

Ragna Gestsdóttir

Ljósmyndari

Ragnar TH

Sara Vilbergsdóttir myndlistarkona hóf störf í Ljósinu í haust og segist alsæl með að kallið hafi komið. Hún segir fólk oft hafa ranghugmyndir um hvað myndlist er og ferlið snúist alls ekki um að skapa hina fullkomnu mynd. Sjálf er Sara stöðugt að læra meira í myndlistinni og segir það algjört leyndarmál að nemendur hennar kenni henni meira en hún þeim.

„Sjálf er ég að mála, vinna pappamassaskúlptúra og saumaverk,“ segir Sara sem kennir í Myndlistarskóla Kópavogs auk þess að kenna í Ljósinu. Hún er menntuð frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, fór í framhaldsnám í Osló í Noregi og hefur kennt á myndlistarnámskeiðum í 25 ár. „Ég tók aldrei uppeldis- og kennslufræði, en hef töluvert mikla reynslu og deili henni á námskeiðum mínum. Ég hef kennt alveg frá fimm ára börnum í leikskóla upp í níræðu fólki. Ég var mikið með barnanámskeið áður, en sneri mér alfarið að fullorðinskennslu fyrir svona 15 árum.“

 

Sara heyrði fyrst af Ljósinu fyrir nokkrum árum þegar nágrannakona hennar veiktist af krabbameini og naut þjónustu Ljóssins. „Hún var svo uppnumin af handverksnámskeiði sem hún fór á þar sem þau voru að búa til skartgripi. Þetta námskeið gerði mjög mikið fyrir hana. Og þá vaknaði áhugi hjá mér hvort væri ekki líka boðið upp á myndlistarnámskeið og hvort Ljósinu vantaði ekki myndlistarkennara. En ég gerði ekkert með það þá, þú veist hvernig þetta er, þetta var svona í bakhöfðinu á mér. Þannig að þegar kallið kom þá var ég mjög ánægð,“ segir Sara, sem er að kenna sína sjöttu viku í Ljósinu þegar viðtalið er tekið.

 

„Ég hef gaman af að breyta til og víkka út sjóndeildarhringinn, kennslan í Ljósinu er ný nálgun fyrir mig, en ég er auðvitað samt að kenna sömu grundvallaratriðin og ég hef mjög mikla ánægju af því að kenna. Það er í aðra röndina í eigingjörnum tilgangi sem ég kenni, ég er alltaf að kynna mér nýja hluti og forvitnast, verð leið á mikilli endurtekningu. Kennslan er minn vettvangur til að halda lífinu spennandi og skemmtilegu og sköpuninni virkri. Og það má auðvitað ekki segja nemendum mínu frá því að ég er að læra miklu meira af þeim, en þau af mér,“ segir Sara hlæjandi.

 

Endalaust ferðalag í litalandinu

 

Sara segir að henni hafi fundist svolítið kvíðvænlegt að stíga í spor Margrétar Jónsdóttur sem sá um myndlistarkennsluna á undan henni. „Ég heyrði að hún hefði verið mjög fínn kennari. Við hittumst og hún sagði mér hvað hún hefði lagt upp með og ég henni hvað ég var að spá og spekúlera með kennsluna og við vorum á nokkuð svipaðri línu. Þau sem eru á framhaldsnámskeiðinu hjá mér núna fóru á byrjendanámskeið hjá henni, þannig að þetta var vonandi ekki mikið högg hjá þeim að skipta um kennara,“ segir Sara, en byrjendanámskeiðin eru í sex vikur, mætt er einu sinni í viku og síðan geta byrjendur skráð sig á framhaldsnámskeið.

 

„Ég stýri kennslunni alfarið og kenni á svipaðan hátt og ég geri í myndlistarskólanum. Ég legg upp með grunnatriði í litafræði og svo kemur teikning inn síðar. Ég notast ekki við strangakademískar aðferðir  heldur reyni að nálgast kennsluna á léttan og skemmtilegan hátt. Litir eru endalaust gleðiefni og uppspretta fyrir alls konar upplifanir og tilfinningar. Að geta verið með einungis þrjá frumliti og síðan svart og hvítt og blandað alla heimsins liti úr því er ekkert smá skemmtilegt verkefni og þú getur verið í endalausu ferðalagi í litalandinu. Og þó þú værir eingöngu í því þá geturðu fengið mikið út úr námskeiðinu. Ég bæti síðan við formfræði, fer í hringformið og við teiknum skálar, bolla, flöskur og fleira án þess að vera með fyrirmynd heldur byggjum bara á hringformsæfingum og sköpum hlutina sjálf. Síðan er liturinn færður inn og unnið með atriði sem hafa lærst í litafræðiferlinu. Við skoðum líka myndbönd, skissubækur og myndamöppur með fjölbreyttu efni.“

„Litir eru endalaust gleðiefni og uppspretta fyrir alls konar upplifanir og tilfinningar. Að geta verið með einungis þrjá frumliti og síðan svart og hvítt og blandað alla heimsins liti úr því er ekkert smá skemmtilegt verkefni og þú getur verið á endalausu ferðalagi í litalandinu.“

Námskeiðið er sköpunarferðalag

 

Sara segir alla geta lært að mála. Á námskeiðin í Ljósinu kemur fólk sem sumt hefur aldrei komið nálægt myndlist áður og segist varla geta teiknað Óla prik. „Það er svo mikill misskilningur að myndlist felist í að vera flinkur að teikna. Þetta er eitthvað sem fólk hefur talið sér trú um og er búið að ákveða til dæmis frá unga aldri af því að það var einhver í skólanum við hliðina á því sem var svo flinkur að teikna. Lítil börn eru svo frjáls og spontant og eru ekki að rífa sig niður en svona um 8-9 ára aldur þá byrjar þessi samkeppnis- og samanburðarárátta og margir stoppa hreinlega þar. Það er miður hvað mörg okkar rífa sig niður. Margir komast fyrst að því á fullorðinsárum að það er hægt að njóta myndsköpunar. Það er svo ánægjulegt að hér sér maður fólk sem mætir á námskeið og nýtur sín,“ segir Sara sem segir námskeiðið alls ekki snúast um að klára hina fullkomnu mynd sem hengd verður upp á vegg.

 

„Námskeiðið er ferðalag og snýst um að  vera í rannsóknarferli og njóta þess að skapa og leika sér í bland við fróðleik. Ég legg upp með að allir séu með skissubók, sem er sannkölluð verkfærakista, þú safnar alls konar hugmyndum þar, hún er þinn staður alveg eins og dagbók. Þú ert ekki með þessa kvöð að „fullgera“ málverk. Svo kemur hitt af sjálfu sér smátt og smátt í framhaldi af æfingunum. Það koma oft mjög flottar myndir út úr skissubók. Hún er til að fjarlægja þá hugsun og pressu að það snúist allt um að gera fullkomna mynd. Skissubókin er hugmyndabanki af því oft langar mann að gera eitthvað en er með stíflaðan huga og dettur ekkert í hug, þá er hægt að leita í skissubækurnar, fletta í þeim, fá hugmyndir og hugmyndasmiðjan fer í gang. Skissubókin er líka hugleiðslustaður, maður getur verið að gera bara punkta og strik í ólíkum litum,“ segir Sara sem segist sjálf vera með ástríðu fyrir skissubókum, safna þeim og vinna í margar bækur af mörgum stærðum.

 

„Svo er fólk misjafnt, sumir vilja vinna abstrakt, aðrir fígúratíft og vinna fíngert, enn aðrir vilja vinna gróft og það verður að finna út úr þessu með skissubókum, þannig getur þú fundið þinn tónn. Alveg eins og  við erum með ólíkar raddir og ólík fingraför, þannig erum við líka með ólíkt myndmál og litapallettur. Þess vegna er svo mikilvægt að vera ekki að miða sig við aðra. Skissubókartækið er svo gott í þessu ferli.“

 

Þegar byrjendanámskeiði lýkur geta nemendur haldið áfram á framhaldsnámskeið. Tvö byrjendanámskeið og eitt framhaldsnámskeið eru í gangi þegar viðtalið er tekið og segir Sara að síðan verði að sjá hvernig framboðið þróist. „Það eru einhverjir á byrjendanámskeiði sem munu svo útskrifast úr Ljósinu og svo eru ekki allir sem finna sig í þessu. Nemendahópurinn er fjölbreyttur hópur og það er mjög ánægjulegt, það er svo gaman að vinna með fólki sem kemur úr ólíkum áttum. Það eru hámark 10 á námskeiði, bæði út af plássinu og líka svo nemendur geti notið sín.“

 

 „Það er alveg sérstakt andrúmsloft í Ljósinu sem er erfitt að lýsa, en mjög gott að vera í. Mér finnst frábært að vera hérna, góður andi, skemmtilegt starfsfólk og skemmtilegir nemendur.“

Andrúmsloft sem erfitt er að lýsa

 

Beðin um að bera saman Ljósið og Myndlistarskóla Kópavogs segir Sara að á námskeiðin í Ljósinu mæti fólk sem er jafnvel að koma að myndlist í fyrsta sinn meðan að í myndlistarskólanum séu margir nemenda búnir að vera í myndlist árum saman. „Ég er með svo marga nemendur sem hafa verið hjá mér lengi að ég setti mér það markmið að vera í stöðugri endurmenntun og reyna að hjakka ekki í sama farinu. Ef ég hrífst af einhverju þá þarf ég að deila því með öðrum. Og nemendur mínir kenna mér um leið og ég þeim,“ segir Sara.

 

 „Það er alveg sérstakt andrúmsloft í Ljósinu sem er erfitt að lýsa, en mjög gott að vera í. Mér finnst frábært að vera hérna, góður andi, skemmtilegt starfsfólk og skemmtilegir nemendur. Hér er fólk úr öllum lögum samfélagsins, en það skiptir engu máli í Ljósinu, hér eru allir í sömu stöðu og allir jafnir. Hér er ekki staður fyrir leikaraskap eða stæla, það eru bara allir svo mikið þeir sjálfir hérna.“