„Sjálf er ég að mála, vinna pappamassaskúlptúra og saumaverk,“ segir Sara sem kennir í Myndlistarskóla Kópavogs auk þess að kenna í Ljósinu. Hún er menntuð frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, fór í framhaldsnám í Osló í Noregi og hefur kennt á myndlistarnámskeiðum í 25 ár. „Ég tók aldrei uppeldis- og kennslufræði, en hef töluvert mikla reynslu og deili henni á námskeiðum mínum. Ég hef kennt alveg frá fimm ára börnum í leikskóla upp í níræðu fólki. Ég var mikið með barnanámskeið áður, en sneri mér alfarið að fullorðinskennslu fyrir svona 15 árum.“
Sara heyrði fyrst af Ljósinu fyrir nokkrum árum þegar nágrannakona hennar veiktist af krabbameini og naut þjónustu Ljóssins. „Hún var svo uppnumin af handverksnámskeiði sem hún fór á þar sem þau voru að búa til skartgripi. Þetta námskeið gerði mjög mikið fyrir hana. Og þá vaknaði áhugi hjá mér hvort væri ekki líka boðið upp á myndlistarnámskeið og hvort Ljósinu vantaði ekki myndlistarkennara. En ég gerði ekkert með það þá, þú veist hvernig þetta er, þetta var svona í bakhöfðinu á mér. Þannig að þegar kallið kom þá var ég mjög ánægð,“ segir Sara, sem er að kenna sína sjöttu viku í Ljósinu þegar viðtalið er tekið.
„Ég hef gaman af að breyta til og víkka út sjóndeildarhringinn, kennslan í Ljósinu er ný nálgun fyrir mig, en ég er auðvitað samt að kenna sömu grundvallaratriðin og ég hef mjög mikla ánægju af því að kenna. Það er í aðra röndina í eigingjörnum tilgangi sem ég kenni, ég er alltaf að kynna mér nýja hluti og forvitnast, verð leið á mikilli endurtekningu. Kennslan er minn vettvangur til að halda lífinu spennandi og skemmtilegu og sköpuninni virkri. Og það má auðvitað ekki segja nemendum mínu frá því að ég er að læra miklu meira af þeim, en þau af mér,“ segir Sara hlæjandi.