Árið að baki - 2022

Höfundar

Heiða Eiríksdóttir

Sólveig Kolbrún Pálsdóttir

Árið 2022 var sannarlega viðburðaríkt í Ljósinu. Það má segja að áhrif COVID hafi smátt og smátt minnkað þegar leið á árið og starfsemi Ljóssins hafi færst í hefðbundið form.

Hér fyrir neðan ætlum við að stikla á stóru yfir augnablikin stór og smá á árinu 2022.

Árið hófst á sneisafullri endurhæfingardagskrá í Ljósinu en því til viðbótar fóru skemmtileg fjáröflunar- og stuðningsverkefni af stað. Þórður Ásgeirsson, þjónustuþegi í Ljósinu, hélt til að mynda myndlistarsýningu í Gallerí Göng og Eyjólfur Pálsson, eigandi Epal, færði Ljósinu fallegan hönnunarstól sem var til sölu hjá Góða hirðinum í lok árs 2021 og gerður var upp í fjáröflunarskyni.

Í febrúar voru haustlægðirnar aðeins að hrella okkur, grímur urðu valfrjálsar, félagsskapurinn Penslarnir hélt málverkasýningu til styrktar Ljósinu, og Öskudagurinn var haldinn með pompi og prakt.

Í mars hlaut Ljósið bjartsýnisverðlaun Framsóknar, Hulda Petersen færði Ljósinu veglegan styrk í tilefni 80 ára afmælis síns síðastliðið haust og við keyrðum smá á málin með karlmönnum í Ljósinu.

Með vorinu breyttist endurhæfingardagskráin örlítið og buðum við til að mynda upp á stafgöngukennslu. Við fengum góða heimsókn frá Kiwanisklúbbinum Heklu þar sem þeir færðu Ljósinu rausnarlegan styrk sem nýtist vel í ört vaxandi starfsemi Ljóssins. Haldnir voru styrktartónleikarnir Óður til vináttu í Seltjarnarneskirkju. Vinahópurinn Fjöll og viðhengi fór í gönguröð til styrktar Ljósinu sem endaði með veislu í garði Ljóssins. Kiwanisklúbburinn Eldey og Verkís færðu Ljósinu rausnarlega styrki.

Sumarið í Ljósinu var líflegt að venju. Tónasmiðjan á Húsavík stóð fyrir glæsilegum rokktónleikum í Húsavíkurkirkju sunnudaginn 29. maí. Mikil tónlistarveisla þar sem öllu var til tjaldað, flytjendur á tónleikunum voru á öllum aldri og tókst einstaklega vel til. Ágóði tónleikanna rann til Krabbameinsfélags Þingeyinga og Ljóssins. Við hjá Ljósinu erum afskaplega þakklát fyrir þetta fallega framtak. Karlahópurinn okkar átti frábærann dag þegar haldið var golfmót á Kiðjabergi, virkilega flottur dagur og vel heppnað mót. Við heimsóttum Ósk Laufdal á Cafe Milano þar sem verk hennar eru til sýnis, eitt verkanna ánefndi hún Ljósinu en allur ágóði þess rann í starfið okkar. Alveg frábært framtak, og sendum við henni bestu þakkir. Þjónustuþegum Ljóssins var boðið upp á flugukastkennslu, þvílíkir meistarataktar þegar veiðistöngunum var sveiflað og var okkar fólk tilbúið að landa þeim stóru. Fjölbreytileikanum var fagnað og regnbogafáninn dreginn að húni eins og vant er. Esjan var gengin á fallegum degi þegar fjölskyldugangan fór fram. Var gangan vel sótt og mátti sjá rjóðar kinnar og bros á hverju andliti. Sigrún B Magnúsdóttir gekk Esjuna 70 sinnum ásamt góðu fólki til minningar um móðir sína, jafnframt safnaði hún áheitum fyrir Ljósið. Algjörlega mögnuð kona.

Í september settum við af stað herferð undir yfirskriftinni „Lífið í nýju ljósi“. Herferðin leggur áherslu á að staldra við og þakka fyrir litlu hlutina sem oft vilja gleymast í hversdeginum, en geta orðið svo afskaplega dýrmætir þegar maður missir þá. Það má með sanni segja að það hafi verið kátt í Ljósahöllinni þegar herferðinni var ýtt úr vör við húsfylli. Verndari herferðarinnar Elize Reid forsetafrú, en hún kom í hús og setti herferðina formlega. Una Torfa kom, söng og spilaði ljúfa tóna fyrir gesti og gangandi. Erum við afskapleg þakklát öllum þeim sem komu að herferðinni með einum eða öðrum hætti.

Haustið var notalegt í Ljósinu. Kvennalandsliðið í blaki kom færandi hendi í minningu góðs félaga sem þær kvöddu á árinu. Við þökkum innilega þeirra framlag. Ljósið hlaut viðurkenningu fyrir að safna mest allra góðgerðarfélaga í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Við áttum notalega stund með dýrmætu sjálfboðaliðunum sem vinna óeigingjarnt starf fyrir Ljósið, þvílíkt ríkidæmi. Lionsklúbburinn Fjörgyn færði Ljósinu tölvubúnað sem nýtist strax vel í starf þjálfaranna okkar, við sendum þeim okkar bestu þakkir. Handverkið bryddaði upp á skemmtilegri nýjung og bauð upp á ljósmyndanámskeið. Því var vægast sagt vel tekið, en Ljósmyndarinn Díana Júlíusdóttir leiddi þáttakendur inn í ótal kima og litróf ljósmyndanna. Okkar fremsti knapi og íþróttamaður, Árni Björn Pálsson ánafnaði Ljósinu verðlaunafé sínu til Ljóssins í minningu móður sinnar. Yndislegt framtak, takk.