Mikilvægt að loka sig ekki af
Bæði leggja þau áherslu á að það sé mikilvægt að tala við aðra einstaklinga sem skilja hvað maður er að ganga í gegnum. „Ég skildi það þegar ég greindist að ég hef örugglega ekkert verið flink í að nálgast fólk sem var að greinast með alvarlega sjúkdóma. Það er pínu snúið hvernig maður á að bera sig að í samræðum. Sumir þorðu ekkert að tala við mig og urðu bara vandræðalegir. Ég dró þann lærdóm af þessu að best er að sýna fólki fyrst og fremst hlýju,” segir Dagný.
„Það er mjög mikilvægt að loka sig ekki af, ef maður er of mikið einn með hugsunum sínum í svona ferli þá versnar ástandið. Áhyggjur manns margfaldast og hlutir sem maður hafði ekki áhyggjur af áður verða að áhyggjum. Og þá er mjög gott að vera ekki að fara yfir þá hluti með makanum sem er veikur heldur gera það með einhverjum sem stendur í sömu sporum og þá þarf maður heldur ekki að fylla mikið inn í söguna. Fólk bara skilur mann, maður er fyrst og fremst að leita að skilningi og ég kom alltaf endurnærður af aðstandendafundum. Búinn að taka áhyggjurnar út úr taugakerfinu og betur í stakk búinn til að fara heim. Það er þess virði að fara í svona hóp og það er mín reynsla að aðstandendahópurinn skilaði mér miklu og mér þykir mjög vænt um þennan hóp. Ég er ekki að tala um mínar tilfinningar á torgum og er frekar lokaður. Þetta gerðist bara allt eðlilega í þessum hópi,” segir Huginn.
„Við ræddum það að líkamlegi þátturinn, veikindin sem slík, væri eitt í þessu ferli og þar yrðum við að treysta á læknana og við fengum frábæra þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Ef við ætluðum að komast í gegnum þetta saman og á löppunum þá yrðum við að hlúa að andlega þættinum hjá okkur báðum. Manni líður bara illa í þessum aðstæðum og þú hefur engan farveg fyrir vanlíðanina. Ef þú talar við einhvern sem þekkir ekki krabbamein um krabbameinið og hvað þér líður illa þá fær maður eiginlega meðaumkun með hinum einstaklingnum að vera að setja hann í þessa stöðu. Fólk fer alveg í flækju og ég skil það mjög vel. Þannig að það var mikilvægt að fara í aðstandendahópinn í Ljósinu og þá sá ég líka hvað fólk var að glíma við mismunandi aðstæður. Fólk var samt líka að tala um hversdagslega hluti og hlæja,” segir Huginn. „Það má líka alveg hlæja,” bætir Dagný við.
„Við vorum dugleg að stunda hreyfingu, sérstaklega eftir að Dagný var búin að ná sér eftir aðgerðina og það eru þessir þættir sem skiptu rosalega miklu máli. Vegna þess að maður þarf að hugsa um formið sitt til að takast á við þetta. Sérstaklega í upphafi í ferlinu þegar það eru einhverjar dagsetningar framundan, eins og tími hjá lækni eða tími í myndatöku, sem verða það eina sem þú hugsar um. Dagný átti sem dæmi tíma eftir þrjár vikur og það var alveg sama hvað ég var að gera í vinnunni eða við vorum að gera annað, þessi tími var alltaf í hausnum,” segir Huginn.
„Ég var í þéttu eftirliti fyrst, var á þriggja mánaða fresti í myndatöku og fleira þannig að ég lifði bara fyrir þrjá mánuði í einu. Gat skipulagt næstu þrjá mánuði, en ekki meira, af því ég vissi ekkert hvað myndi gerast eftir þrjá mánuði. Og það var rosalega þreytandi og taugatrekkjandi. Maður hugsaði alltaf: fyrir og eftir mynd, fyrir og eftir læknatíma, og var að reyna að stjórna því hvað myndi gerast,” segir Dagný.