Áhrif greiningar og meðferðar á sjálfsmynd og líkamsímynd
Höfundur
Erna Magnúsdóttir, forstöðumaður Ljóssins
B.Sc, Iðjuþjálfi, M.Sc, Forysta og stjórnun
Krabbameinsmeðferðir eins og skurðaðgerðir og lyfja- og geislameðferðir geta haft útlitsbreytingar og aukaverkanir í för með sér sem hafa áhrif á líkamsímynd fólks. Þannig geta líkamlegar breytingar eftir meðferð leitt til langtímastreitu. Sjálfs-samkennd, eða færnin til að sýna sjálfum sér umhyggju, er innri eiginleiki sem getur aukið færni til að aðlagast líkamsbreytingum í kjölfar meðferðar á krabbameini.
Meðferð við brjóstakrabbameini felur oft í sér ýmis inngrip eins og skurðaðgerð og henni fylgir gjarnan viðbótarmeðferð sem getur innihaldið blöndu af lyfjameðferð, geislameðferð og hormónameðferð. Þessar meðferðir, hver fyrir sig og í sameiningu, framkalla ýmsar ólíkar aukaverkanir. Brjóstið er tekið að hluta til eða allt og jafnvel bæði brjóstin og þetta getur leitt til þess að brjóstin verða ósamhverf og ólík. Skurðsárið getur skilið eftir sig ör með tilheyrandi breytingum á tilfinningu og örvun brjósta eða geirvörtu. Þá getur stundum hreyfanleiki útlima breyst. Lyfjameðferð getur haft í för með sér fylgikvilla, eins og hármissi, ójafnvægi í þyngd, litabreytingar á húð og nöglum og hitaköst tengd snemmbúnum tíðahvörfum. Geislameðferð, sem er gefin ein og sér eða í bland við lyfjameðferð, getur einnig valdið viðbrögðum í húð og litabreytingum og samfara þessu geta átt sér stað hægfara og langtíma taugafræðilegar breytingar. Það er því ekki skrítið að þær konur sem hafa upplifað krabbamein í brjóstum tali oft um skaðlegu áhrifin af meininu á líf þeirra.
„Er ég jafnmikils virði og áður?
Upplifun fólks á eigin líðan eftir krabbameinsgreiningu
og í tengslum við að koma aftur til vinnu eftir greiningu“
Karlmenn sem fá krabbamein geta líka glímt við erfiðleika hvað varðar líkamsímynd, til dæmis þeir sem fá krabbamein í blöðruhálskirtil. Meðferðin við því getur breytt líkamlegu útliti þeirra og upplifun á eigin líkama. Þrátt fyrir að blöðruhálskirtillinn sé ekki sýnilegur er meðferðin stundum tengd sjáanlegum líkamlegum breytingum. Til dæmis getur skurðaðgerð leitt til öra á líkama og hormónabælandi meðferð getur leitt til kvenlegra einkenna með aukaverkunum á borð við stækkun brjósta og minnkun á eistum. Þar að auki glíma sumir við þvagleka og ristruflanir. Þrátt fyrir þessar aukaverkanir og vísbendingar um mikilvægi þeirra fyrir karlmenn með blöðruhálskirtilskrabbamein þá hefur líkamsímynd karlmanna með þetta krabbamein fengið litla athygli.
Gerð var langtímarannsókn á 74 einstaklingum með blöðruhálskirtilskrabbamein til að kanna hvort líkamsímynd gæti breyst eftir því sem tíminn leið, auk þess að skoða sambandið milli breytinga á líkamsímynd og lífsgæða. Hormónameðferð hafði neikvæð áhrif á líðan karlmannanna vegna breytinga á líkamlegum einkennum á tveggja ára tímabili og þannig höfðu breytingar á líkamsímynd marktæk tengsl við breytingar á lífsgæðum.
Lyfjameðferð getur haft í för með sér fylgikvilla, eins og hármissi, ójafnvægi í þyngd, litabreytingar á húð og nöglum og hitaköst tengd snemmbúnum tíðahvörfum. Geislameðferð, sem er gefin ein og sér eða í bland við lyfjameðferð getur einnig valdið viðbrögðum í húð og litabreytingum og samfara þessu geta átt sér stað hægfara og langtíma taugafræðilegar breytingar.
Eigindlegar rannsóknir hafa bent til þess að viðbrögð við krabbameini og tengdum meðferðum geti verið flókin en þó ekki eingöngu neikvæð. Rannsókn þar sem djúpviðtöl voru tekin við fjórar konur, á aldrinum 32–67 ára, sem höfðu annars vegar fengið brjóstakrabbamein en hins vegar krabbamein í ristil, sýnir að þrátt fyrir að þátttakendur töluðu um einhverjar slæmar upplifanir í meðferðinni og eftir hana þá töluðu þær einnig jákvætt um reynsluna, til dæmis það að kynnast því hvers líkaminn er megnugur og getu hans til að komast í gegnum krabbamein.
Vegna ofangreindra fylgikvilla hefur verið bent á að brýnt sé að krabbameinsgreindir einstaklingar hafi aðgang að viðeigandi stuðningi og endurhæfingu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) skilgreinir endurhæfingu sem: Aðgerðir er gera einstaklingum kleift, sem glíma við færniskerðingu eða eru í hættu á að verða fyrir henni, að ná og viðhalda hámarksfærni í umhverfi sínu. Endurhæfing er lykilatriði til að gera einstaklingum kleift að vera í eða snúa aftur í eigið nærumhverfi, vera sjálfbjarga, geta stundað nám eða vinnu og verið virkur þátttakandi í samfélaginu þrátt fyrir takmarkanir.
Ýmsar rannsóknir sem gerðar hafa verið benda sterklega til þess að þverfagleg endurhæfing hafi ávinning fyrir krabbameinsgreinda einstaklinga, bæði sálfélagslega og líkamlega. Á það bæði við um líkamlegar æfingar og andlegan stuðning sem getur dregið úr kvíða og þunglyndi. Þannig getur endurhæfingin aukið virkni og þátttöku í daglegum athöfnum óháð tegund krabbameins. Að þessu sögðu þá vitum við að endurhæfingin í Ljósinu hefur leitt til þess að þeir sem stunda endurhæfingu reglulega eru betur í stakk búnir til að fara aftur til vinnu, í skóla eða finna hlutverk sem hentar þeirra getu og áhuga.