Hvers vegna er Ljósið til?

Hvers vegna er Ljósið til? Þetta er spurning sem við í stjórn Ljóssins veltum fyrir okkur hvernig best væri að svara þegar við unnum að stefnumótun félagsins á síðasta ári. Þetta er stór spurning, sem er í raun bæði auðvelt og erfitt að svara.   

Undanfarin ár hafa um 1.800 manns greinst með krabbamein á Íslandi. Þessi hópur hefur því miður farið stækkandi þrátt fyrir framfarir í þekkingu og forvörnum. Það geta allir geta fengið krabbamein því miður. U.þ.b. einn af hverjum þremur Íslendingum greinist með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Þetta eru háar tölur og eflaust hærri en flestir myndu halda. Með framþróun á greiningum og meðhöndlum krabbameina fjölgar hins vegar þeim sem læknast eða lifa áfram þrátt fyrir greiningu. Í dag eru yfir 17.000 manns á lífi þrátt fyrir krabbameinsgreiningu skv. skrá Krabbameinsfélagsins.   

Það er ekki hlutverk Ljóssins að greina krabbamein eða meðhöndla þau. Hlutverk Ljóssins er að hlúa að þeim sem greinast, valdefla og styðja við þau og aðstandendur þeirra. Það er áfall að greinast með krabbamein og erfitt að takast á við andlegar, líkamlegar og félagslegar afleiðingar þess. Ljósið hjálpar sínum skjólstæðingum við að fást við sín veikindi og gerir lífið bærilegra vegna þeirra meðferða sem þau eru í. Ljósið endurhæfir og eykur líkurnar á því að þau komi sterkari aftur út í lífið – hvort sem það er aftur til vinnu, skóla eða í aðra virkni í samfélaginu.    

Ljósinu tekst það vel. Ljósið sinnti yfir 1.600 manns árið 2021. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra segja að Ljósið hafi jákvæð áhrif á lífsgæði. Í þjónustukönnun Ljóssins, sem framkvæmd var í október 2022, kemur fram að 66% þjónustuþega segja Ljósið hafi haft mjög jákvæð áhrif á þeirra lífsgæði og 27% segja þjónustuna hafa haft fremur jákvæð áhrif. Þjónustan hefur bætt andlega og líkamlega líðan flesta og segja 95% að þjónustan sé það fjölbreytt að hún fullnægi flestum eða öllum þeirra endurhæfingarþörfum. Þegar spurt er um heildaránægju með þjónustu Ljóssins eru 96% mjög eða frekar ánægð.   

Þessi mikla ánægja kemur fram í öllum hópum sem sækja Ljósið óháð kyni, aldri og búsetu – enda hefur Ljósið lagt áherslu á að þjóna ólíkum hópum. Hvort sem það eru karlarnir í strákmatnum, erlendu þjónustuþegarnir, fólkið á landsbyggðinni, unga fólkið, aðstandendurnir eða aðrir hópar, þá hefur tekist vel til. Það má þakka því öfluga fagfólki sem starfar í Ljósinu og mögnuðu andrúmslofti sem tekist hefur að skapa. 

Starfsemi Ljóssins er ekki án áskorana. Þjónustuþegum hefur fjölgað umtalsvert og komum í endurhæfingu fjölgað enn meira, því hver og einn skjólstæðingur nýtir sér nú fleiri úrræði að meðaltali en áður. Húsnæðið er fullnýtt og fjármögnun starfseminnar er krefjandi verkefni. Við erum virkilega þakklát fyrir alla þá sem styðja Ljósið, hvort sem það eru einstaklingar eða félög sem lagt hafa Ljósinu lið. Ef þú lesandi góður ert ekki nú þegar Ljósavinur, þá hvetjum við þig eindregið til þess að leggja Ljósinu lið með því að gerast Ljósavinur.   

Svo hvers vegna er Ljósið til? Svo til staðar sé einstaklingsmiðuð endurhæfing fyrir krabbameinsgreinda og stuðningur fyrir aðstandendur þeirra. Þörfin er svo sannarlega til staðar og henni er sannarlega vel sinnt af Ljósinu. Ef ekki væri fyrir Ljósið yrði krabbameinsgreining og meðferð gegn krabbameini mun stærra og erfiðara viðfangsefni. 

 

Brynjólfur Eyjólfsson 

Stjórnarmaður í Ljósinu