„Ljósið er sunny place, hér ríkir jákvæðni, hér er félagsskap að fá og allir vinalegir“

Höfundur

Ragna Gestsdóttir

Ljósmyndari

Mummi Lú

Raimonds Bushmanis tilheyrir ört vaxandi hópi skjólstæðinga Ljóssins, íslendingum sem eru af erlendu bergi brotnir. Raimonds heillaðist af Íslandi í ferðum til landsins og ákvað að flytja hingað fyrir nokkrum árum. Hann tekst einn á við sitt krabbamein og segir afar gott að koma í Ljósið, sem hann lýsir sem sólskinsstað.

 

„Ég hafði ferðast þrisvar til Íslands og heillaðist algerlega af landinu og ákvað að flytja hingað fyrir fimm árum síðan. Ég heillaðist af náttúrunni og loftið hér er hreint og ferskt, lífsstílinn er auðveldari hér enn í heimalandinu og minna stress hér að mínu mati. Ég vann erfiðisvinnu og fannst ég hreinlega þurfa á tilbreytingu að halda,“ segir Raimonds sem er 48 ára, fæddur og uppalinn í Lettlandi.

 

Raimonds starfaði sem þjónn og barþjónn í heimalandinu og hóf störf sem barþjónn á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Áhugamál hans hafa lengi tengst óhefðbundnum meðferðum og stundar hann Tai Chi og Qigong. „Í fyrstu fannst mér æfingarnar og hreyfingarnar flóknar en eftir því sem ég stundaði Tai Chi oftar og lærði meira þá skil ég betur hvað æfingarnar gera fyrir mann. Það eru margir sem leggja stund á jóga og hugleiðslu, og hugleiðslan liggur í hreyfingunum,“ segir Raimonds. Tai Chi er æfingakerfi sem felst í því að tengja saman hægar, mjúkar og flæðandi hreyfingar, hugleiðslu og öndunartækni. Líkaminn er því á stöðugri hreyfingu þegar Tai Chi er stundað og sumir kalla það hugleiðslu með hreyfingu.

 

Taldi þreytuna vera vinnuálag

Raimonds fór að finna fyrir líkamlegum breytingum fyrir um það bil tveimur og hálfu ári. „Ég var oft þreyttur og hélt að það væri bara vegna vinnuálags, ég fór að finna fyrir hita á kvöldin, byrjaði að svitna mikið á næturnar og einnig fann ég fyrir stirðleika í fótunum,“ segir Raimonds. Þreytan ágerðist og líkamleg vanlíðan jókst. Raimonds fór einnig að finna fyrir minni krafti í vöðvum og maginn stækkaði og taldi hann að það væri einhverjum magakvilla um að kenna. Raimonds fór til læknis í vor í skoðun og segir hann lækninn hafa hringt í sig daginn eftir og sagt honum að mæta ekki til vinnu heldur koma á Landspítalann í frekari rannsóknir. „Ég hélt þá að ég væri kannski bara með COVID. Eftir skoðun margra lækna kom í ljós að hvítu blóðkornin hjá mér voru 700hundruðfalt fleiri en eðlilegt er. Læknirinn sagðist aldrei hafa séð annað eins. Eftir margar rannsóknir og sýnatöku á beinmerg var ég greindur með blóðkrabbamein (e. chronic myeloid leukemia).  Ég hafði aldrei heyrt um þetta fyrr, það er engin fjölskyldusaga um krabbamein, ég reyki ekki og drekk afar sjaldan,“ segir Raimonds.

Meðferðin felst í lyfi sem Raimonds þarf líklega að taka út ævina og tekur hann eina töflu á hverju kvöldi. Aukaverkanir á fylgiseðlinum eru margar og segist hann hafa fengið margar þeirra en ekki allar. Á meðal þeirra sem hann hefur glímt við eru vöðvakrampar, blæðingar, lyktarskynið breyttist í byrjun og kom svo tilbaka,  húðexem, ógleði, sjóntruflanir. Pillurnar eru ekki ódýrar og segir Raimonds þær kosta um hálfa milljón á mánuði.

 

  „Ljósið er sunny place (sólskinsstaður), hér ríkir jákvæðni, hér er félagsskap að fá og allir vinalegir. Maturinn er mjög góður. Ég hef kynnst jafningjum hér bæði á fundum og í ræktinni. Ég bý einn og það getur verið erfitt að takast á við þetta einn.“

Þarf að æfa íslenskuna

 

Raimonds segist þakka fyrir að hafa verið í góðu líkamlegu formi fyrir veikindin og segir það eiga þátt í bata hans. „Ég var búinn að stunda hlaup, skíði, sund, Tai Chi og smávegis Kung Fu. Þetta ásamt líkamsræktinni í Ljósinu hjálpaði mér að ná líkamlegum krafti aftur og vöðvamassa. Krabbameinið er minn stóri slagur,“ segir Raimonds sem frétti fyrst af Ljósinu í viðtalstíma hjá félagsráðgjafa þar sem hann var að leita sér ráðgjafar um endurhæfingu. 

 

„Ljósið er mjög góður staður. Það var útbúið plan fyrir mig í líkamsræktinni og ég byrjaði að mæta tvisvar í viku. Ég vildi mæta oftar en líkaminn réð ekki við það. Ég æfi Tai Chi daglega líka. Ég mætti á fyrirlestur á ensku sem fjallaði um hvernig á að takast á við lífið eftir greininguna. Ég hef líka mætt á fundi og í handverkið,“ segir Raimonds, sem býr einn hérlendis en í Lettlandi á hann systur sem hann segist tala við næstum daglega. „Mig langar að fara aftur til vinnu, en ég veit ekki alveg hvort ég fæ gamla starfið mitt aftur. Það verður að koma í ljós. Ég þarf líka að æfa mig betur í íslenskunni, en íslenska er erfitt tungumál,“ segir Raimonds.

 

„Ljósið er sunny place (sólskinsstaður), hér ríkir jákvæðni, hér er félagsskap að fá og allir vinalegir. Maturinn er mjög góður. Ég hef kynnst jafningjum hér bæði á fundum og í ræktinni. Ég bý einn og það getur verið erfitt að takast á við þetta einn.  Það er gott að hitta aðra hér í Ljósinu sem eru að upplifa það sama. Ég ætla að halda áfram að mæta í Ljósið eins lengi og ég má, Ljósið er mjög góður staður.“

  „Í fyrstu fannst mér æfingarnar og hreyfingarnar flóknar en eftir því sem ég stundaði Tai Chi oftar og lærði meira þá skil ég betur hvað æfingarnar gera fyrir mann. Það eru margir sem leggja stund á jóga og hugleiðslu, og hugleiðslan liggur í hreyfingunum.“