„Ég flutti til Íslands árið 1997 og er búinn að búa hér í 25 ár, gifti mig og á fimm börn með fyrrverandi konu minni. Ég vann við hvað sem er, oftast tengt matargerð, meðal annars hjá Sóma og í eldhúsi Landspítalans, sem þjónn og í eldhúsinu á veitingastöðum. Þegar ég greindist með krabbameinið fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan var ég hins vegar að vinna hjá Málningu,” segir Jason.
„Ég var búinn að vera hjá lækni á Borgarspítalanum þar sem ég er með sykursýki og var einnig kominn með of háan blóðþrýsting. Ég tók eftir að ég bólgnaði meira og meira um um hálsinn og var ég greindur með eitlakrabbamein. Það voru tekin sýni hjá mér tvisvar sinnum og einnig beinmergssýni. Ég fór síðan í lyfjameðferð í nokkur skipti sem náði ekki að vinna nógu vel á meininu og var ég því settur á sterkari lyf til að vinna frekar á því.”
Hvernig leið þér við að fá krabbameinsgreininguna? „Ég varð hræddur, maður trúir ekki að svona gerist hjá manni sjálfum, en svo getur hver og einn greinst með krabbamein. Áður en ég greindist var ég búinn að ganga í gegnum skilnað, ég er sykursjúkur og með of háan blóðþrýsting, svo greindist ég með krabbamein. Þetta var aðeins mikið af öllu í einu. Líf mitt í 3-4 ár einkenndist af áföllum og krabbameinið var bara eitt áfall í viðbót,” segir Jason, en enginn ættingi hans hefur greinst með krabbamein. „Þetta gæti alveg tengst því að ég vann með mörg sterk efni í vinnunni, mig klæjaði mjög oft í húðina á höndum eftir vinnuna.”