„Líkamsræktin hjálpaði mér að fókusa á eitt verkefni í einu “

Höfundur

Ragna Gestsdóttir

Jason Alexander segir að krabbameinið sem hann greindist með fyrir tæpum tveimur árum síðan hafi bara verið enn eitt áfallið, þó hann hafi eins og fleiri staðið í þeirri trú að krabbamein væri eitthvað sem aðrir fengju en ekki hann. Jason er nú að ljúka endurhæfingu á sama tíma og hann er að leita sér að framtíðarvinnu og koma unnustu sinni og barni þeirra til Íslands.

„Ég varð hræddur, maður trúir ekki að svona gerist hjá manni sjálfum, en svo getur hver og einn greinst með krabbamein. Áður en ég greindist var ég búinn að ganga í gegnum skilnað, ég er sykursjúkur og með of háan blóðþrýsting, svo greindist ég með krabbamein. Þetta var aðeins mikið af öllu í einu. Líf mitt í 3-4 ár einkenndist af áföllum og krabbameinið var bara eitt áfall í viðbót.”

„Ég flutti til Íslands árið 1997 og er búinn að búa hér í 25 ár, gifti mig og á fimm börn með fyrrverandi konu minni. Ég vann við hvað sem er, oftast tengt matargerð, meðal annars hjá Sóma og í eldhúsi Landspítalans, sem þjónn og í eldhúsinu á veitingastöðum. Þegar ég greindist með krabbameinið fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan var ég hins vegar að vinna hjá Málningu,” segir Jason.

 

„Ég var búinn að vera hjá lækni á Borgarspítalanum þar sem ég er með sykursýki og var einnig kominn með of háan blóðþrýsting. Ég tók eftir að ég bólgnaði meira og meira um um hálsinn og var ég greindur með eitlakrabbamein. Það voru tekin sýni hjá mér tvisvar sinnum og einnig beinmergssýni. Ég fór síðan í lyfjameðferð í nokkur skipti sem náði ekki að vinna nógu vel á meininu og var ég því settur á sterkari lyf til að vinna frekar á því.”

 

Hvernig leið þér við að fá krabbameinsgreininguna? „Ég varð hræddur, maður trúir ekki að svona gerist hjá manni sjálfum, en svo getur hver og einn greinst með krabbamein. Áður en ég greindist var ég búinn að ganga í gegnum skilnað, ég er sykursjúkur og með of háan blóðþrýsting, svo greindist ég með krabbamein. Þetta var aðeins mikið af öllu í einu. Líf mitt í 3-4 ár einkenndist af áföllum og krabbameinið var bara eitt áfall í viðbót,” segir Jason, en enginn ættingi hans hefur greinst með krabbamein. „Þetta gæti alveg tengst því að ég vann með mörg sterk efni í vinnunni, mig klæjaði mjög oft í húðina á höndum eftir vinnuna.”  

Héldu að hann væri mun yngri

 

Jason heyrði fyrst af Ljósinu hjá félagsþjónustunni. „Ég mætti hingað eftir meðferðina og hélt að ég ætti bókaðan fund. Svo var þó ekki enn það var vel tekið á móti mér. Ég er búinn að koma hingað í Ljósið núna í tæpa níu mánuði. Það var fyndið að þau héldu að ég væri miklu yngri en ég er, ég er frekar unglegur,” segir Jason og hlær. Og það er enginn lygi hjá honum, hann er ansi unglegur að sjá þessi 46 ára gamli maður sem er fimm barna faðir með það sjötta á leiðinni.

 

„Ég er ekki jafnsterkur líkamlega í dag eins og ég var áður, ég á líka til að missa hluti úr höndum mér og glími við minnisleysi, sem mér skilst að sé algengt hjá þeim sem hafa glímt við krabbamein. Það tók líka oft á að fara langa ferð með strætisvagni til að koma hingað í Ljósið. Ég þarf að fókusa líka á sykursýkina og er að fá ný lyf við henni. Ég er einnig á verkjalyfjum þar sem ég finn fyrir verkjum í öðrum fætinum eftir krabbameinsmeðferðina,” segir Jason.

 

„Ég átti einhvern veginn von á að hér væri bara eldra fólk, en svo er alls ekki. Það var líka mjög sérstakt að hitta tvo vinnufélaga mína hér í ræktinni,” segir Jason sem segir ræktina í Ljósinu hjálpa sér mikið í endurhæfingunni. „Ljósið og sérstaklega líkamsræktin hjálpaði mér að fókusa á eitt verkefni í einu. Ég kem hér að jafnaði þrisvar í viku. Ég fór á leirnámskeið og námskeið í tálgun. Mig langar að prófa jógað líka, ég held að það væri gott fyrir líkamann, ég finn fyrir því að beinin hjá mér eru veikbyggðari. Ég elska líka að veiða,” segir Jason sem hefur hnýtt flugur heima og segist hann einnig til í að fara á fluguhnýtingar- og kastnámskeiðin. 

 

Framundan hjá Jason er að finna nýja vinnu. „Ég þarf að finna nýja vinnu í janúar, þar sem endurhæfingunni lýkur þá. Ég þarf að greiða meðlag og eiga fyrir daglegum nauðsynjum, það er ekkert frítt. Það væri frábært að fá vinnu í mötuneyti til dæmis í skóla, hjá fyrirtæki eða hinu opinbera. Ég vann sem dæmi hjá Sjálfsbjargarheimilinu fyrir þremur árum. Ég er líka að skila inn gögnum svo unnusta mín og barnið okkar geti flutt til mín frá Filippseyjum.”

 

„Ljósið og sérstaklega líkamsræktin hjálpaði mér að fókusa á eitt verkefni í einu. Ég kem hér að jafnaði þrisvar í viku. Ég fór á leirnámskeið og námskeið í tálgun. Mig langar að prófa jógað líka, ég held að það væri gott fyrir líkamann, ég finn fyrir því að beinin hjá mér eru veikbyggðari. Ég elska líka að veiða.”