„Ég greindist um miðjan nóvember 2019 með brjóstakrabbamein sem var komið út í eitla og þá fór allt á hvolf. Ég fór í hefðbundið eftirlit árinu áður, en þarna fann ég sjálf að það var eitthvað skrýtið undir holhöndinni, sem kom í ljós að var eitill. Það var krabbamein í brjósti og eitlum, ég var með tvær tegundir af meini sem er víst ekki óalgengt. Ég fór í alls konar undirbúning og meðferð, byrjaði í lyfjameðferð sem gekk bara mjög vel í byrjun, síðan fór ég að finna fyrir ansi mörgum aukaverkunum, ég held ég hafi tekið fylgiseðilinn af þeim. Ég var bara ansi lengi að ná mér,“ segir Inga Rut, sem fór í aðgerð í apríl 2020.
Inga Rut fór í brjóstnám á öðru brjósti. „Ég vildi náttúrlega losna við hitt líka en læknarnir færðu nú rök fyrir að það væri óþarfi og of mikið. Síðan tók við lyfjameðferð og geislameðferð. Brjóstnámið var það minnsta af þessu. Svo er ég í viðbótarmeðferð sem ég verð í næstu árin, það er talað um að annað lyfið sé jafnvel út ævina og hitt í tíu ár, ég er bæði á töflum og í sprautum á þriggja mánaða fresti. Það eru alls konar aukaverkanir en ég reyni alltaf að hugsa rosalega fallega til þessarar töflu og þakka henni fyrir að vera til því að hún breytti heilmiklu fyrir mig.“
Þáðu hjálpina
Inga Rut ákvað að bíða ekki með skoðun eftir að hún fann hnúðinn þrátt fyrir að stutt væri liðið frá hefðbundnu eftirliti. „Ég var alveg viss um að þetta væri eitthvað. Pabbi hafði greinst tveimur árum áður þannig að ég var búin að fylgjast með hans meðferð og hitta lækninn hans, Ásgerði Sverrisdóttur, og ég var svo heppin að vera undir hennar leiðsögn í mínu ferli,“ segir Inga Rut, sem var búin að vera í sporum aðstandanda föður síns, Karls Sigurbjörnssonar, og mæta með honum í viðtöl og meðferðir.
Hvernig var að vera komin hinu megin og orðin sjúklingur? „Ég veit það ekki, það er búið að vera mikið af áföllum í fjölskyldunni þannig að þetta kom ekki beint á óvart, það er svo skrýtið. Enn eitt, og hvað næst?,” Ég átti von og ekki von á þessu. Af hverju ekki ég? Það er mikið um krabbamein í föðurfjölskyldunni, pabbi er fimmti bróðirinn af sex og fjórir þeirra eru látnir. Þannig að ég fór í erfðarannsókn þegar ég greindist sem kom ekkert út úr.“
Hvernig brást fjölskylda þín við? „Auðvitað var þetta mikið sjokk, krakkarnir mínir voru búnir að fylgjast með afa sinum og það urðu allir hræddir. Svo hjálpaði ekki til að stuttu eftir að ég fékk greininguna þá var COVID og öll hræðslan í kringum það, ég ónæmisbæld og ég þorði ekki út í búð að versla í matinn. Auðvitað var þetta heilmikið álag en þá kom líka Ljósið og tók utan um börnin mín,” segir Inga Rut, sem á fjögur börn með eiginmanni sínum, Sigurði Arnarsyni sóknarpresti Kópavogskirkju. „Eldri sonurinn er 23 ára og hann flutti að heiman á þessu tímabili, svo eru dæturnar 20 og 16 ára, og yngri sonurinn 13 ára. Börnin vildu ekki fara á námskeið í Ljósinu, en Helga Jóna Sigurðardóttir iðjuþjálfi og fjölskyldumeðferðarfræðingur hefur hitt okkur, bæði sem aðstandendur pabba og með mér sem mínir aðstandendur. Það hjálpaði heilmikið að læra hvernig maður tæklar ofhugsanir, kvíða og streitu. Krabbameinsgreining umturnar öllu lífinu hjá öllum. Börnin voru kannski mikið að byrgja innra með sér af því þau vildu ekki valda mér áhyggjum. En ég held við höfum öll náð að tækla þetta ferli ótrúlega vel með hjálp, við þáðum hjálp, það getur þetta enginn einn. Það er ótrúlega dýrmætt að hafa aðgang að hjálp og finna þessa hlýju og stuðning og ég á bara ekki orð yfir það.”
Deit með gönguskónum
Inga Rut setti sér markmið strax eftir greininguna. „Ég ákvað frá byrjun að ég ætlaði að vera jákvæð og tækla þetta og ég ákvað að ég myndi eiga deit við gönguskóna mína á hverjum degi sama hvort deitið yrði stutt eða langt. Í kjölfarið lét ég draum rætast og fór í gönguhóp sem vinkona mín kom með mér í. Og þá byrjuðu aðrar hindranir, ég datt á rassinn og axlarbrotnaði og þurfti að fara í aðgerð, þannig að göngudraumurinn var úti í bili,” segir Inga Rut.
„Mér hafa alltaf fundist gönguferðir heillandi og langaði að gera það að veruleika að fara í gönguferðir. Eftir því sem ég náði að labba lengra þá fannst mér eins og ég hefði náð einhverri áskorun eða markmiði. Svo þegar ég fór að ganga á fell með karlinn og hundinn þá fannst mér svo gott að ég leyfði mér að vera sár og reið og jafnvel að gráta á leiðinni upp en ég leyfði mér ekki að gera það á leiðinni niður. Ég leyfði mér að bölva á leiðinni upp en ekki niður og það var góð tilfinning þegar ég náði því. Og enn betri tilfinning þegar ég var komin upp og áttaði mig á að ég gleymdi að vera reið á leiðinni. Þannig að það var pínu högg að detta og missa gönguferðirnar út en ég missti ekki vonina og fann mér annað áhugamál. Ég er ekki komin aftur í göngurnar, en það verður vonandi einhvern tíma. Þetta eru hænuskref, ég er svolítið óþolinmóð við sjálfa mig alltaf og þarf að læra það að það er allt í lagi að byrja upp á nýtt.”