Rannsóknarsamstarf Sidekick Health og Ljóssins

Ljósmyndari

Ragnar TH

Ljósið hefur verið í rannsóknarsamstarfi með Sidekick Health síðan 2021. Við hittum fyrir þau Hauk Guðmundsson og Kristínu Laufey Steinadóttur, rannsakendur hjá Sidekick Health, og báðum þau að segja okkur frá samstarfinu.

Segið okkur aðeins frá því hvað Sidekick Health er.

 

Sidekick Health er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í stafrænum úrræðum fyrir ýmsa hópa fólks með langvinna sjúkdóma, þar með talin úrræði fyrir fólk með krabbamein. Sidekick Health leitaði til Ljóssins í byrjun árs 2021 með rannsóknarsamstarf í huga þar sem Ljósið er leiðandi í endurhæfingu fyrir fólk sem greinist með krabbamein á Íslandi. Með það sameiginlega markmið í huga að vinna að bættri líðan einstaklinga með krabbamein, hófst undirbúningur að rannsóknarsamstarfi Ljóssins, Sidekick Health og Landspítala en krabbameinslæknar þar hafa verið ráðgefandi við þróun á úrræðinu og framkvæmd rannsóknanna.

 

 

Hvað er stafrænt úrræði?

 

Í einföldu máli þá eru stafræn úrræði það sem í daglegu tali kallast smáforrit í snjallsíma, eða einfaldlega app. Þau úrræði sem Sidekick Health þróar og rannsakar eru til þess gerð að hjálpa fólki að takast á við ýmsa sjúkdóma með fræðslu og einföldum verkefnum sem miða að því að efla heilsuna.

Sidekick úrræðið inniheldur fræðslu um sjúkdóminn og einkenni sem geta fylgt og verkefnin snúa að því að bæta lífsstílsvenjur. Helstu áherslur úrræðisins eru eftirfarandi:

 

  • Hugrækt
  • Svefn
  • Hreyfing
  • Næring
  • Einkenni og aukaverkanir

 

Fræðslan og verkefnin sem úrræðið býður upp á vinna með þessi atriði með það að marki að kenna streitustjórnun, slökun og núvitund (hugrækt), bæta svefnvenjur, stunda reglulega hreyfingu, borða næringarríkan og fjölbreyttan mat og styðja fólk í því að takast á við einkenni og aukaverkanir af völdum sjúkdómsins og meðferðarinnar. Allt þetta getur hjálpað til við að efla lífsgæði fólks sem greinst hefur með krabbamein.

 

Í núverandi mynd er úrræðið 14 vikna prógram með fræðslu og skemmtilegum verkefnum sem taka einungis um fimm mínútur daglega. Með því að ljúka verkefnum og hlusta á eða lesa fræðsluna safna þátttakendur einnig stigum í formi vatnsdropa. Vatnsdroparnir safnast svo saman og reglulega styrkir Sidekick Health góðgerðarstofnun sem gefur hreint vatn til barna í neyð í nafni þátttakenda.

 

 

Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar og eru í gangi með Ljósinu?

 

Til þess að sannreyna verkun þessara úrræða, þá þarf að framkvæma rannsóknir á notkun þeirra. Fyrsta rannsóknin á úrræði fyrir krabbameinsgreinda var gerð í Ljósinu í lok árs 2021 þar sem um 30 einstaklingar tóku þátt. Aðalmarkmið þeirrar rannsóknar var að sjá hvort fólk í krabbameinsmeðferð myndi nýta sér stafrænt úrræði og sjá hversu ánægt fólk væri með notkun á þessum úrræðum. Niðurstöðurnar komu mjög vel út. Þar voru 97% þeirra sem hófu þátttöku virkir megnið af tímanum, 89% töldu sig líklega til að mæla með prógramminu fyrir aðra og um helmingur þátttakanda skráði minnkandi verki á því fjögurra vikna tímabili sem rannsóknin varði. Lesa má niðurstöður þeirrar rannsóknar á ensku hér.

 

Í kjölfar þessarar rannsóknar hófst svo undirbúningur að næsta stigi sem var að gera lengri rannsóknir á sérhæfðari úrræðum fyrir ýmsa hópa krabbameinsgreindra og gera samanburð á fólki sem fær úrræðið og fólki sem fær það ekki. Úrræðið er viðbót við hefðbundna meðferð þannig að allir einstaklingar sem taka þátt halda áfram í sinni krabbameinsmeðferð en helmingur einstaklinganna fær jafnframt stafræna úrræðið og handahóf ræður því í hvorum hópnum fólk lendir. Þessar rannsóknir gefa vísbendingar um hvaða ávinning má hafa af því að nota úrræðið.

 

Tvær rannsóknir í samstarfi Sidekick, Ljóssins og Landspítala eru í gangi eða í þann mund að hefjast. Rannsókn á sértæku úrræði fyrir einstaklinga með brjóstakrabbamein hófst síðastliðið sumar og mun halda áfram næsta misserið. Um er að ræða 14 vikna úrræði með sex mánaða eftirfylgni og enn er verið að taka inn nýja þátttakendur í þá rannsókn. Hin rannsóknin er á sértæku úrræði fyrir einstaklinga með aðrar gerðir krabbameina en brjóstakrabbamein og hefst sú rannsókn innan skamms. Það úrræði er einnig 14 vikna, með sex mánaða eftirfylgnitímabili eftir að úrræði lýkur.

 

Það helsta sem verið er að skoða í þessum rannsóknum er hvort úrræðið hjálpi til við að bæta lífsgæði þátttakenda, meðal annars með því að sjá hvort munur sé á krabbameinstengdri þreytu milli þeirra sem fá úrræðið og þeirra sem eru í samanburðarhópi.

 

 

Hverjir geta tekið þátt í rannsókninni?

 

Það fer eftir eðli hvorrar rannsóknar hverjir geta tekið þátt í þeim. Því er mikilvægt að áhugasamir spyrjist fyrir hjá sínum meðferðaraðilum hvort þeir geti tekið þátt í hvorri rannsókn fyrir sig. Þær rannsóknir sem eru í gangi núna eða að fara af stað eru fyrir fólk í virkri krabbameinsmeðferð (lyfjameðferð, geislameðferð eða annað sambærilegt).

 

Þeir sem skrá sig og uppfylla þátttökuskilyrði fara í þrek-, líkams- og styrktarmælingar í Ljósinu tvisvar á rannsóknartímabilinu ásamt því að svara spurningalistum um líðan og einkenni. Þátttakendur lenda annaðhvort í rannsóknarhópi eða samanburðarhópi. Þeir sem eru í rannsóknarhópi fá Sidekick úrræðið í símann sinn og eins og áður sagði, fara í gegnum 14 vikur af verkefnum og fræðslu.

 

 

Eitthvað að lokum?

 

Samstarfið við Ljósið hefur gengið afskaplega vel. Samskonar þjónusta og Ljósið veitir, þar sem boðið er upp á heildræna nálgun í endurhæfingu krabbameinsgreindra, er vandfundin annars staðar í heiminum og ljóst að skjólstæðingar sem þangað sækja eru í góðum höndum. Við hjá Sidekick Health erum afar þakklát fyrir samstarfið og þær góðu viðtökur sem rannsóknarverkefnin hafa hlotið. Að lokum viljum hvetja einstaklinga sem eru áhugasamir um þátttöku að hafa samband við starfsfólk Ljóssins eða sinn krabbameinslækni á Landspítalanum til að fá frekari upplýsingar.